Fara í efni

Grunnur matvælagreinanna

Grunndeildarnemar í súpugerð.
Grunndeildarnemar í súpugerð.

Ætli nemendur sér að verða matreiðslumenn, framreiðslumenn, kjötiðnaðarmenn eða bakarar verða þeir fyrst að fara í gegnum grunnnám matvæla- og ferðagreina. Og það nám, sem er í tvær annir, er blanda bóklegra og verklegra æfinga af ýmsum toga.

Ástæðurnar fyrir því að nemendur velja þetta nám eru eins margar og nemendurnir eru margir. Sumir nemendur hafa fyrir löngu lagt línur um hvað þeir ætla að læra þegar þeir verða stórir – og hafa þá sett stefnuna á kokkinn, kjötiðnaðarmanninn, þjóninn eða bakarann. Aðrir vilja læra þau grunnatriði sem kennd eru í grunndeildinni í nýta sér í hinu daglega lífi, enda ekki ónýtt að læra grunninn í matreiðslu, bakstri og að leggja á borð, svo dæmi séu tekin.

Þegar litið var inn á matvælabrautina voru grunndeildarnemar í tveimur verklegum tímum. Annars vegar var Heba Finnsdóttir að kenna nemendum sínum að dúka borð og koma fyrir hnífapörum, glösum og diskum eftir kúnstarinnar reglum. Því það er hreint ekki sama hvernig hlutirnir eru gerðir. Framreiðsla er ákveðin fræði eða vísindi og vel menntað framreiðslufólk er eftirsótt á alla betri veitingastaði.

Ari Hallgrímsson var hins vegar í eldhúsinu að kenna nemendum sínum réttu handbrögðin í eldamennskunni. Verkefni dagsins var súpugerð – annars vegar blómkálssúpa og hins vegar sveppasúpa – og með því skyldi borið fram nýbakað brauð.

Í upphafi annar er jafnan farið í öll þau grunnatriði sem nemendur þurfa að hafa á hreinu – óháð eldamennskunni sjálfri – eins og meðferð tækja og tóla í eldhúsinu og öryggismálin eru alltaf í öndvegi. Margt ber að varast í eldhúsinu eins og annars staðar. Og þegar síðan er komið að eldamennskunni þarf að horfa til einfaldra hluta í upphafi og síðan er stig af stigi byggt ofan á þekkinguna og farið í flóknari hluti í eldamennskunni þegar líður á haustönnina og síðan áfram á vorönn.

Núna á haustönn eru átján nemendur í grunndeild matvæla- og ferðamálagreina og er þeim skipt í hópa. Hver námshópur er í þremur mismunandi verklegum tímum - matreiðslu, framreiðslu og bakstri.