Fara í efni

Mótorarnir greindir sundur og saman

Ásgeir V. Bragason fræðir nemendur sína um hina ýmsu leyndardóma mótorsins.
Ásgeir V. Bragason fræðir nemendur sína um hina ýmsu leyndardóma mótorsins.

Starf bifvélavirkjans er fjölbreytt og það tekur stöðugum breytingum í takt við breytingar á vélum og ökutækjum. En hvort sem bíllinn er rafmagnsbíll eða með dísel- eða bensínmótor er starf bifvélavirkjans í grunninn það sama; viðhald, viðgerðir eða breytingar. Og viðgerðirnar eru ótrúlega fjölbreyttar – og í mörgum tilfellum flóknar – og því þarf að vera fyrir hendi mikil þekking og reynsla til þess að takast á við þær.

Tölvan hefur heldur betur hafið innreið sína í þessari iðngrein eins og öðrum iðngreinum og þær hafa auðvitað færst inn í námið með t.d. bilanagreiningum o.fl. Og alltaf er eitthvað nýtt að gerast í afleggjurum bifvélavirkjunarinnar eins og t.d. bílaréttingum og bílamálun.

Ásgeir V. Bragason, meistari í bifvélavirkjun og án efa einn af reyndari bifvélavirkjun á Akureyri, tók við námsbraut í bifvélavirkjun á haustönn 2023. Námshópurinn sem hann fylgir núna úr hlaði, sem í eru níu nemendur, er því annar námshópurinn sem hann kennir. Fyrsta hópnum kenndi hann á sl. vetri, bæði bóklegar og verklegar greinar, og sá hópur er núna í starfsnámi.

Almenna reglan er sú að nemendur úr grunnskóla sem stefna á bifvélavirkjann þurfi fyrst að hafa lokið grunndeild málmiðngreina, sem tekur tvær annar, og síðan hefst námið í bifvélavirkjuninni. Fyrstu tvær annirnar eru bóklegt og verklegt nám í skóla, síðan tekur við tólf mánaða starfsnám og að því loknu taka aftur við tvær annir í bóklegu og verklegu námi í skóla. Að námi í skóla og starfsnámi á verkstæðum undir handleiðslu meistara loknu geta nemendur tekið sveinspróf og öðlast starfsréttindi og í framhaldinu er opin leið til meistararéttinda í faginu.

Það er að vonum óteljandi margt sem Ásgeir kennir nemendum sínum í bifvélavirkjuninni, enda býr hann yfir mikilli þekkingu og reynslu og hefur því miklu að miðla. Þegar litið var inn í verklega kennslustund í vikunni voru nemendur að kynna sér eitt og annað í mótorum, mældu og skrúfuðu sundur og saman.

Ásgeir segir afar mikilvægt hversu stjórnendur verkstæða á Akureyri og í nágrenni og aðrir sem tengjast þessari atvinnugrein séu almennt jákvæðir í garð námsbrautarinnar og vilji greiða götu hennar á ýmsan hátt. Fyrir það sé hann þakklátur. Enda sé það svo að það sé hagur allra þeirra sem starfa í þessari iðngrein að styðja við góða menntun á þessu sviði, þörfin fyrir fagmenntað fólk sé mikil. Ánægjulegt sé t.d. hversu vel hafi gengið að fá nemapláss fyrir alla þá þrettán nemendur sem stunduðu nám í bifvélavirkjuninni sl. vetur og séu núna í starfsnámi. Tólf þeirra starfi á verkstæðum á Akureyri og einn á Húsavík. Næsta vetur komi þessir nemendur síðan aftur inn í skólann en námshópurinn sem nú sé í skólanum fari í staðinn í starfsnám. Þannig gangi þetta koll af kolli.

Bifvélavirkjunin býr við þröngan kost í húsakynnum VMA en þess er vænst að úr því rætist með tilkomu hinnar væntanlegu nýju verknámsálmu, sem ríkisvaldið og sveitarfélögin í Eyjafirði hafa samþykkt að byggja við norðvesturhorn núverandi skólahúss. Í henni er gert ráð fyrir aðstöðu fyrir annars vegar byggingadeild skólans og hins vegar bifvélavirkjunina.