Fara í efni

Grunndeildarnemar í fyrirtækjaheimsóknum

Grunndeildarnemar að sjálfsögðu klæddir að hætti hússins í Kjarnafæði-Norðlenska. Mynd: Heba Finnsdó…
Grunndeildarnemar að sjálfsögðu klæddir að hætti hússins í Kjarnafæði-Norðlenska. Mynd: Heba Finnsdóttir.

Einn af áföngunum sem nemendur í grunnnámi matvæla- og ferðagreina taka núna á haustönn ber yfirskriftina Þjónustusamskipti, þar sem lögð er áhersla á eitt og annað er lýtur að þjónustu í ferða-, hótel- og veitingagreinum. Hluti af kennslunni í þessum áfanga eru kynningarheimsóknir í fyrirtæki á Akureyri og voru þessar myndir teknar þegar hluti grunndeildarnema og Steinunn Heba Finnsdóttir kennari þeirra heimsóttu kjötvinnslufyrirtækið Kjarnafæði-Norðlenska á Akureyri og fengu að kynnast því hvernig kjötvinnsla gengur fyrir sig. Á móti hópnum tók Rúnar Ingi Guðjónsson, gæðafulltrúi hjá fyrirtækinu, sem þekkir vel til matvælabrautarinnar í VMA því hann hefur undanfarin ár kennt nemum í kjötiðn.

„Þessi heimsókn okkar í Kjarnafæði-Norðlenska var síðasta heimsóknin á önninni í þessum áfanga en áður höfum við heimsótt veitingastaðina Strikið, Múlaberg og RUB, einnig Dvalarheimilið Hlíð, Bakaríið við brúna og Hótel KEA. Það hefur verið mjög skemmtilegt og áhugavert fyrir nemendur að fá innsýn í ólíka starfsemi þessara fyrirtækja og er ástæða til að þakka öllum þeim sem tóku á móti okkur og sögðum nemendum frá starfsemi fyrirtækjanna. Eftir heimsóknirnar hafa nemendur unnið verkefni um vinnustaðina og faggreinarnar sem eru undir matvæla- og ferðamálabrautinni.
Á vorönn verða nemendur síðan í eina viku í verklegri þjálfun á vinnustað sem nemendur velja sér. Þeir, sem eru ekki endilega þeir vinnustaðir sem við heimsóttum núna á haustönn, spanna það svið sem við erum að kenna, þ.e. matreiðslu, framreiðslu, bakaraiðn og kjötiðn,“ segir Heba Finnsdóttir.

Í námskrá er áfanganum Þjónustusamskiptum þannig lýst:

Í áfanganum er fjallað um samskipti í ferða-, hótel- og veitingagreinum. Rætt verður um þjónustuhugtakið og grunnþætti góðrar þjónustu og hvernig byggja megi upp og viðhalda traustu sambandi á vinnustað og í samskiptum við viðskiptavini/ferðamenn/gesti. Nemandinn fær þjálfun í að takast á við vandamál sem kunna að koma upp og leita lausna. Þá er farið yfir viðbrögð við kvörtunum viðskiptavina/ferðamanna/gesta, mikilvægi sjálfstrausts í þjónustu og þjónustulund. Sérstök áhersla er lögð á framkomu, snyrtimennsku, gagnkvæma virðingu og umburðarlyndi og mikilvægi þessara þátta í allri þjónustu. Lögð er áhersla á að rækta það besta í nemandanum og hann hvattur til virkni og þátttöku í skólastarfinu.