Fara í efni

Fótboltinn vék fyrir Þórdunu

Hulda Þórey Halldórsdóttir, formaður Þórdunu.
Hulda Þórey Halldórsdóttir, formaður Þórdunu.

Hulda Þórey Halldórsdóttir tók við embætti formanns nemendafélagsins Þórdunu í byrjun nóvember en áður var hún varaformaður félagsins.

Hulda Þórey er sautján ára Sauðkrækingur. Hún hóf nám á íþrótta- og lýðheilsubraut VMA fyrir rúmu ári og stefnir á námslok vorið 2026.

Ég hef lengi verið í íþróttum, spilaði fótbolta með Tindastóli alveg upp í meistaraflokk en ákvað um síðustu áramót, þegar ég var kominn í námið hér og hafði hellt mér í félagsmálin líka, að láta staðar numið í fótboltanum eða í það minnsta taka mér góða pásu. Það má eiginlega segja að boltinn hafi vikið fyrir Þórdunu! Auðvitað var ekki auðveld ákvörðun að hætta í fótboltanum en ég fann að ég varð að ýta honum til hliðar til þess að geta sinnt náminu og félagslífinu hér. Mér leist vel á íþróttatenginguna á íþrótta- og lýðheilsubrautinni. Ég hefði getað farið í framhaldsskóla á Króknum en mig langaði að stíga út fyrir þægindarammann og prófa eitthvað nýtt og kynnast nýju fólki. Þess vegna kom ég hingað í VMA og bý á Heimavistinni. Ég sé ekki eftir þeirri ákvörðun að koma hingað.

Hulda Þórey segir því ekki að leyna að það fari mikill tíminn í starfið í Þórdunu, alla daga sé hún eitthvað með hugann við félagslífið. Það sé því heilmikið púsluspil að koma hinu daglega lífi saman, að vinna í þágu nemenda, stunda námið af kappi og rækta vina- og fjölskyldutengslin. Og aðra hverja helgi fer hún heim á Sauðárkrók og tekur þar vaktir á dvalarheimili aldraðra. Stundaskráin er því þéttskipuð. En Hulda Þórey kippir sér ekki upp við það enda segist hún alltaf hafa verið skipulögð og líði prýðilega með að hafa mikið að gera.

Ástæðan fyrir því að ég datt inn í starfið í Þórdunu er sú að ég þekkti kynningarstjóra Þórdunu, Margréti Rún Stefánsdóttur, sem er einnig frá Sauðárkróki, og hún hvatti mig til þess í fyrra að sækja um að gerast nýnemafulltrúi Þórdunu. Það gerði ég og fór þannig inn í starfið í nemendafélaginu. Síðan var ég kjörin varaformaður síðastliðið vor og núna er ég komin í formennskuna. Mér líst bara vel á það sem framundan er. Við erum afar ánægð með hvernig til tókst með Sturtuhausinn og nú taka við næstu viðburðir, sem við munum kynna á næstunni. Við stefnum á jólabíósýningu 2. desember og 5. desember verður síðan jólaball. Við vorum með hryllingsbíó í október hér í Gryfjunni og við viljum prófa að endurtaka leikinn með jólabíói.
Eftir áramótin tekur síðan eitt og annað við. Það allra stærsta verður auðvitað árshátíðin okkar sem verður í Íþróttahöllinni og við erum komin á fullt í undirbúning og höfum stórar hugmyndir um hana. Einnig er stefnt á leiksýningu Leikfélags VMA en við eigum eftir að hnýta nokkra lausa enda áður en við getum sagt meira frá henni. Og auðvitað tökum við sem fyrr þátt í Gettu betur og hafa sex nemendur verið í stífum æfingum til þess að vera sem best undirbúnir þegar kemur að keppninni í janúar.

Einn af mikilvægum þáttum í því að koma upplýsingum um viðburði og starfið almennt í Þórdunu á framfæri er að nota samfélagsmiðla. Hulda Þórey segir að mest noti Þórduna Instagram og stundum einnig Tik Tok og Facebook.

Ég vil bara sjá alla nemendur á jólaballinu í desember og síðan að sjálfsögðu á árshátíðinni okkar síðar í vetur. Því öll okkar vinna í Þórdunu miðar að því að gera sem allra best fyrir nemendur skólans.

Hulda Þórey segist hafa mikla ánægju af því að starfa í félagslífinu í þágu nemenda VMA og raunar hafi hún lengi haft áhuga á félagsstörfum. Meðal annars hafi hún tekið virkan þátt í starfi félagsmiðstöðvar á Sauðárkróki og þá hafi hún verið formaður nemendaráðs 10. bekkjar Árskóla, grunnskólans á Sauðárkróki.