Fara í efni

Stærðfræðin er alls staðar í kringum okkur

Víkingur Þorri Reykjalín Sigurðsson.
Víkingur Þorri Reykjalín Sigurðsson.

Víkingur Þorri Reykjalín Sigurðsson, nemandi á náttúruvísindabraut VMA, lætur ekki deigan síga í stærðfræðinni. Á þessu þriðja og síðasta skólaári sínu í VMA heldur hann uppteknum hætti og keppir í stærðfræði bæði hér á landi og erlendis. Fyrr á þessari önn tryggði hann sér sæti í úrslitum Stærðfræðikeppni framhaldsskólanna, þriðja árið í röð, og í síðustu viku kom hann heim til Akureyrar eftir að hafa keppt í Eystrasaltskeppninni í stærðfræði.

Á fyrsta námsári sínu í VMA segist Víkingur hafa fengið ábendingu frá stærðfræðikennaranum sínum, Þórhalli Tómasi Buchholz, um hvort hann hefði áhuga á að keppa í stærðfræði. Því hafi hann ekki áður velt fyrir sér en ákvað að slá til. Þar með var teningnum kastað og Víkingur fór í forkeppni Stærðfræðikeppni framhaldsskólanna haustið 2022 og tryggði sér farseðilinn í úrslit keppninnar sem fór fram 4. mars 2023.  Einnig tók þátt í  úrslitunum Theodóra Tinna, systir Víkings Þorra. Í þeim stóð Víkingur sig feykilega vel og tryggði sér þátttökurétt í Norrænu stærðfræðikeppninni, sem var veflæg og fór fram 30. mars 2023. Og ekki þarf að orðlengja það að áfram stóð Víkingur Þorri sig með afbrigðum vel og tryggði sér sæti í sex manna keppnisliði Íslands sem tók þátt í Ólympíuleikunum í stærðfræði í Chiba í Japan 2. til 13. júlí 2023.

Og á þessu ári hefur Víkingur haldið uppteknum hætti. Hann tók þátt í úrslitum Stærðfræðikeppni framhaldsskólanna sl. vor, tryggði sér sæti núna á haustdögum í úrslitunum næsta vor og er nú nýlega kominn heim eftir að hafa tekið þátt í árlegri Eystrasaltskeppni í stærðfræði sem að þessu sinni var haldin í Tartu í Eistlandi dagana 14. til 18. nóvember sl. Með Víkingi Þorra í keppnisliði Íslands voru Jóakim Uni Arnaldarson, Merkúr Máni Hermannsson, Sigurður Baldvin Ólafsson og Snædís Jökulsdóttir. Liðsstjórar voru Viktor Már Guðmundsson og Sigurður Jens Albertsson.

Víkingur Þorri segir að sín sterkasta hlið í stærðfræðinni sé að leysa flóknar þrautir sem á ensku má kalla problem solving þar sem fyrst og fremst reynir á rökhugsun og innsæi og að finna út hvaða rannsóknaaðferðum sé hægt að beita til þess að komast að niðurstöðu. Í flestum tilfellum eru engar tölur eða breytur í þessum dæmum og heldur ekki flóknar stærðfræðiformúlur.

Það má kannski segja að þetta sé töluverð þjálfun en oft rekst ég á slík dæmi á netinu þar sem þarf að leysa eitthvert vandamál og þá á ég það til að setjast niður og reyna að finna lausnina mér til gamans. Ég reyni að undirbúa mig vel fyrir þessar keppnir, sérstaklega fyrir lokakeppni Stærðfræðikeppni framhaldsskólanna og svo auðvitað bæði Eystrasaltskeppnina og Ólympíuleikana í stærðfræði.
Það má finna stærðfræði alls staðar í kringum mann í daglega lífinu og því er í mínum alveg ljóst að þessi stærðfræðiáhugi mun nýtast mér mjög vel. Og það er ekkert launungarmál að ég horfi til verkfræði í framhaldi af náminu hér í VMA, líklega annað hvort byggingarverkfræði eða hugbúnaðarverkfræði, og það er ljóst að góður grunnur í stærðfræði er mikilvægur í þeim greinum.

Í Eystrasaltskeppninni tóku að þessu sinni þátt ellefu þjóðir – þ.e. Norðurlöndin fimm (Ísland, Danmörk, Svíþjóð, Noregur og Finnland), Eystrasaltslöndin þrjú (Eistland, Lettland og Litháen), Pólland, lið frá norðurhluta Þýskalands og ellefta þjóðin, Úkraína, var boðsþjóð gestgjafanna Eista.

Víkingur Þorri segir að Eystrasaltskeppnin sé frábrugðin öðrum stærðfræðikeppnum að því leyti að í henni vinni hvert lið í sameiningu að því að leysa tuttugu dæmi. Liðsmenn hverrar þátttökuþjóðar sitji því saman að því að leysa dæmin, í sameiningu eða skipti þeim með sér.

Það er mjög gaman að taka þátt í slíkri keppni og þetta er heilmikið fjör. Við kynnumst krökkum með sama áhugamál hjá hinum þjóðunum og auvitað eigum við öll það sameiginlegt að vera nördar í stærðfræði - í jákvæðri merkingu!
Við enduðum í ellefta sæti af ellefu þátttökuliðum. Reyndar er það svo að Ísland er langoftast í síðasta sæti í þessum keppnum, sem er út af fyrir sig ekkert skrítið vegna þess hversu fá við erum. En ef við hins vegar deilum stigunum í keppnninni eftir höfðatölu þátttökuþjóðanna lentum við í öðru sæti!

Víkingur Þorri segir að þátttakan í öllum þessum stærðfræðikeppnum hafi gefið sér mikið og hann sé afar þakklátur fyrir að hafa fengið þetta tækifæri – og ekki hafi sakað að fá að sjá sig um í heiminum – að fara meira að segja alla leið til Japans. Hann segist stefna á góðan árangur í úrslitum Stærðfræðikeppni framhaldsskólanna næsta vor enda sé það forsenda þess að eiga mögulega á því að vera valinn í keppnislið Íslands fyrir Ólympíuleikana í stærðfræði sem verða næst haldnir á Sunshine Coast í Ástralíu 10.-20. júlí 2025.