Fara í efni

Óður til eyfirskrar náttúru

Kristján Helgi Alegre Magnússon.
Kristján Helgi Alegre Magnússon.

Íslensk náttúra er Kristjáni Helga Alegre Magnússyni hugleikin í listsköpun hans og því lá beint við að hann sækti efnivið í akrílverk, sem nú er á vegg gegnt austurinngangi skólans, út í náttúruna. Í október sl. gekk Kristján á Súlur, tók myndir af fegurðinni alltumlykjandi og túlkaði síðan það sem fyrir augu bar í þessu akrílverki. Ef vel er rýnt í verkið má auðveldlega þekkja fjallahringinn þegar horft er út Eyjafjörð. Verkið kallar Kristján einfaldlega Eyjafjörður.

Kristján Helgi er fæddur og uppalinn á Akureyri og var í Lundarskóla alla sína grunnskólagöngu. Kom í VMA haustið 2021 og hóf ári síðar nám á listnáms- og hönnunarbraut. Stefnan er tekin á að ljúka náminu í lok haustannar 2025.

Kristján segist hafa haft mikla ánægju af náminu og er mjög sáttur að hafa valið þessa námsbraut. Módelteikningin þótti honum skemmtileg en það sem þó hafi höfðað mest til hans sé grafíska hönnunin. Á þessari önn vinnur Kristján að lokaverkefni og ferilmöppu og viðfangsefnið segir hann að verði landslag í Bitrufirði. Þaðan hafi afi hans, sem lést sl. sumar, verið. Kristján segist hafa komið í Bitrufjörð þegar hann var yngri og hafi fest í huga sér landslagið þar og ákveðnar minningar og þetta ætli hann að kalla fram í málverki sem verði jafnframt lokaverkefni hans – í senn óður til Bitrufjarðar og í minningu afa hans.

Til hliðar við hið daglega amstur í skólanum vinnur Kristján sem póstsendill, núna tvo seinniparta, en sl. sumar starfaði hann hjá Póstinum í fullu starfi. Hann segir þetta fjölbreytt og lifandi starf sem hann hafi ánægju af, hann fái tækifæri til þess að hitta fjölda fólks og sjá sig um. Ekki aðeins er hann í póstdreifingu á Akureyri oft fer hann einnig út fyrir bæjarmörkin, austan Eyjafjarðar út á Grenivík og um Eyjafjarðarsveit.

En á hvað stefnir Kristján í framtíðinni? Hann er fljótur til svars og segist hafa löngum til þess að læra grafíska hönnun. Hún heilli mjög, enda veiti hún tækifæri til þess að skapa hluti sem fólk sér, hvort sem er auglýsingar, plaköt eða eitthvað annað.