Fara í efni

Skrifar og myndskreytir barnasögu sem lokaverkefni

Emelía Ósk Gunnþórsdóttir við akrílverk sitt í VMA.
Emelía Ósk Gunnþórsdóttir við akrílverk sitt í VMA.

Þetta er sá tími þegar nemendur á listnáms- og hönnunarbraut vinna baki brotnu að lokaverkefnum sínum. Ein þeirra er Emelía Ósk Gunnþórsdóttir sem er á myndlistarlínu brautarinnar. Hún útskrifast reyndar ekki í maí nk. heldur í desember og hyggst nýta haustönnina m.a. til þess að bæta við sig áföngum á textíllínu listnáms- og hönnunarbrautar. En lokaverkefnið sem hún er sem sagt að vinna að núna er eitt stykki barnabók – hún skrifar og myndskreytir.

Emelía segir að hún hefði örugglega getað látið gervigreindina um að koma með tillögu að sögunni en hafi fremur kosið að skrifa hana sjálf. Vinnuheiti sögunnar er Embla og óskastjarnan og fjallar hún í stórum dráttum um stelpuna Emblu sem reynir að verða sér út um óskastjörnu. Söguna sjálfa segist Emelía vera búin að skrifa að mestu leyti og núna sé einbeitingin á myndskreytinguna sem hún segist vinna með tré- og vatnslitum. Afraksturinn verður síðan sýndur á lokaverkefnasýningu nemenda af listnáms- og hönnunarbraut sem í vor verður ekki í Listasafninu á Akureyri eins og undanfarin ár, heldur í Menningarhúsinu Hofi.

Emelía Ósk sleit barnsskónum á Húsavík. Var þar í Borgarhólsskóla en síðan lá leiðin í VMA haustið 2022. Hún segir að sig hafi langað til þess að læra eitthvað myndlistartengt og fengið hvatningu í þá veru frá grunnskólakennurunum sínum á Húsavík. Skólakynningin á VMA hafi síðan sannfært sig um að innrita sig á listnáms- og hönnunarbraut og hún sjái sannarlega ekki eftir því. Námið sé skemmtilegt og gefandi og kosturinn við það sé sá að það gefi innsýn í svo ólík listform og sköpun sem auðveldi nemendum valið varðandi framhaldsnám í listum, ef hugur þeirra stendur til þess. Þá nefnir Emelía að kennararnir í deildinni séu allir alveg einstakir, þeir gefi sér alltaf tíma til þess að spjalla og gefa álit sitt á hugmyndum nemenda.

Emelía segist kunna því afar vel að búa á Akureyri, á þessum árum í VMA hafi hún eignast fullt af nýjum vinum. Um framhaldið að VMA loknum segist Emilía horfa annars vegar til þess að fara áfram í myndlist í Listaháskólanum en einnig hafi hún áhuga á kennaranámi í HÍ með áherslu á list- og verknámsgreinar.

Á vegg mót austurinngangi VMA gefur að líta akrílverk sem Emelía vann á haustönn 2024. Verkið hefur ekki eiginlega yfirskrift en fjöllin gætu allt eins verið Kinnarfjöllin sem blasa við frá Húsavík. Í myndinni má einnig sjá hús og kisur. Bleiki liturinn er nokkuð áberandi í myndinni sem er ekki skrítið því hann er uppáhald Emelíu.