Mikill áhugi á rafmagninu
Í upphafi þessa skólaárs voru teknir inn 39 nemendur í grunndeild rafiðna, sem er hámarksfjöldi nemenda sem unnt er að taka inn á fyrsta ár. Aðsóknin í þetta nám hefur verið mjög góð undanfarin ár og telur brautarstjóri rafiðngreina í VMA að það sé til marks um að ungt fólk hafi áhuga á tæknigreinum, öfugt við það sem oft er haldið fram.
„Ég tel að þessi góða aðsókn sé til marks um að ungt fólk hafi áhuga á tæknigreinum. Auðvitað er alltaf eitthvað um að nemendur hætti á fyrsta ári vegna þess að fagið reynist ekki vera það sem nemendur héldu að það væri, en almennt séð helst okkur mjög vel á nemendum. En á móti fáum við einnig nemendur sem hafa verið í bóknámi en hafa ekki fundið sig í því. Mér sýnist að um helmingur nemenda okkar í grunndeildinni komi beint úr grunnskóla, um fjórðungur hefur lokið einu ári í framhaldsskóla og sem næst fjórðungur er eldri nemendur. Það skiptir miklu máli í þessu sambandi að það hefur verið nóg að gera hjá fólki með þessa menntun og það eru síður en svo horfur á því að það sé að breytast. Til dæmis er alveg ljóst að það verður mikið að gera fyrir rafvirkja í tengslum við virkjanaframkvæmdir á Þeistareykjum og stóriðjuframkvæmdir á Bakka við Húsavík. Rafvirkjunin er líka mjög góður grunnur fyrir þá nemendur sem hafa áhuga á að fara áfram í til dæmis tæknifræði,“ segir Óskar Ingi Sigurðsson, brautarstjóri rafiðngreina.
Á þessari önn var byrjað að kenna samkvæmt nýju fyrirkomulagi í grunndeild rafiðna, eins og sjá má hér. Áður en farið er í sveinspróf þurfa verðandi rafvirkjar eða rafeindavirkjar að ljúka fjögurra ára námi, að verklegu námi meðtöldu. „Í rafvirkjuninni er val um svokallaða skólaleið eða samningsleið, sem þýðir að í skólaleið eru tekin þrjú og hálft ár í skóla og hálft ár á vinnustað en í samningsleið eru þrjú ár í skóla og eitt ár á vinnustað. Við tókum 39 nemendur inn í grunndeildina í haust sem þýðir að í það heila eru núna rösklega hundrað nemendur í rafiðngreinum hérna í skólanum,“ segir Óskar Ingi.
Hann segir að allur gangur sé á því hvernig nemendur hyggist nýta nám sitt í raf- eða rafeindavirkjun. Sumir stefni ákveðið á að starfa í þessu fagi, aðrir hafi löngun til þess að ná sér í þessa kunnáttu óháð því hvort þeir starfi í faginu eða ekki og þriðji hópurinn sé einbeittur í því að byggja ofan á þennan grunn með frekara námi.