Listgreinar í skólastarfi í þriðjudagsfyrirlestri
Í dag, þriðjudaginn 1. mars, kl. 17 heldur Sandra Rebekka Dudziak, myndlistarmaður og kennari fyrirlestur í Ketilhúsinu undir yfirskriftinni Má ekki bara sleppa þessum listgreinum? – Hlutverk listgreina í skólastarfi. Í fyrirlestrinum fjallar Sandra um hlutverk listgreina í skólastarfi og mikilvægi þeirra í þroska og námi barnanna sem koma til með að móta framtíð samfélagsins.
Sandra Rebekka Dudziak útskrifaðist sem kennari frá Háskóla Íslands 2011 og frá Myndlistaskólanum á Akureyri 2014. Hún starfar sem sjónlistakennari við Giljaskóla en meðfram þeirri vinnu stundar hún framhaldsnám í sérkennslufræði við Háskólann á Akureyri. Hún vinnur að eigin list þegar færi gefst og hélt nýlega sína fyrstu einkasýningu.
Fyrirlesturinn er hluti af fyrirlestraröð í Ketilhúsinu á þriðjudögum í vetur sem hófst sl. haust og lýkur fyrir páska.
Fyrirlestraröðin er samvinnuverkefni Listasafnsins á Akureyri, Verkmenntaskólans, Háskólans á Akureyri og Myndlistaskólans á Akureyri.
Aðgangur á fyrirlesturinn í dag er ókeypis og eru allir velkomnir.