Takast á við nýjar áskoranir
Þrátt fyrir að koma frá ólíkum löndum geta þær Reem Khattab Almahammad og Sherihan Essam Farouk Azmy Sade auðveldlega talað saman. Báðar tala þær arabísku – Reem kemur frá Sýrlandi en Sherihan frá Egyptalandi. Arabískan í þeirra heimalöndum er reyndar ekki alveg sú sama, mismunandi orð og framburður en í grunninn er tungumálið hið sama og því engin vandkvæði að þær geti talað saman.
Reem Khattab Almahammad, sem er 19 ára gömul, var í hópi sýrlenskra flóttamanna sem komu til Akureyrar í janúar á þessu ári. Hún kom ásamt tveimur öðrum úr þessum hópi í VMA undir lok síðustu annar, til þess að kynnast skólanum aðeins, en hóf síðan markvisst nám núna á haustönn ásamt þremur piltum úr hópi sýrlensku flóttamannanna, þar á meðal er einn bróðir hennar. Fjölskylda Reem er stór, hún á fimm bræður og auk foreldra hennar er amma hennar í heimili. Strax sl. vetur hóf hún ásamt öðrum sýrlensku flóttamönnunum markvisst íslenskunám og hún reynir að tala eins mikla íslensku og henni er unnt. Fjölskyldan flúði stríðshörmungarnar í Sýrlandi þegar Reem var fimmtán ára gömul og í um fjögur ár var hún í flóttamannabúðum í Líbanon. Þar naut hún engrar menntunar og því segir hún það kærkomið að fá tækifæri til þess að ganga í skóla hér á landi og mennta sig. Fyrstu skrefin í íslenskunni steig hún á íslenskunámskeiðum hjá Símenntunarmiðstöð Eyjafjarðar og áfram nýtur hún m.a. íslenskukennslu í VMA. Hún dregur ekki dul á að íslenskan sé erfitt tungumál að læra. Hún segist vissulega sakna Sýrlands en dvölin á Íslandi sé góð, náttúran einstaklega falleg og fiskurinn góður en hins vegar geti hún ekki neitað því að hér sé frekar kalt í veðri!
Sherihan Essam Farouk Azmy Sade er sautján ára gömul frá Alexandríu í Egyptalandi. Hún kom til Akureyrar í ágúst sl. og dvelur hér fram í júní á næsta ári sem skiptinemi. Hún segir að þegar hún hafi séð lista yfir lönd hjá AFS-skiptinemasamtökunum hafi Ísland verið eitt þeirra landa sem komu til greina. Hún hafi séð myndir á internetinu frá Íslandi og fundist landið áhugavert – hún hafi komist að því að aðeins byggju hér um 330 þúsund manns og náttúran væri sérstaklega falleg. Í framhaldinu hafi hún aflað sér frekari upplýsinga um lífið á Íslandi og venjur fólksins hér og niðurstaðan hafi síðan verið sú að velja Ísland. „Og mér líkar þetta mjög vel. Ég var mjög heppin með fjölskyldu hér á Akureyri og landið er virkilega fallegt. Mér líkar skólinn einnig mjög vel. Bæði skólinn og nemendurnir hér eru töluvert frábrugðnir því sem ég á að venjast að heiman, þeir eru mun frjálslegri hér en í Egyptalandi. Það er til dæmis framandi fyrir mig, en jafnframt skemmtilegt, að sjá nemendur hér með litað hár. Einnig eru þeir mun frjálslegri í klæðaburði en ég á að venjast frá Egyptalandi og það kann ég vel að meta. Hérna í VMA er ég m.a. í tímum á listnámsbraut, ég læri einnig íslensku, ensku og stærðfræði,“ segir Sherihan.
Eftir að Sherihan kom til Íslands var hún í tvo daga í Reykjavík með öðrum skiptinemum á vegum AFS víðsvegar að úr heiminum þar sem þeir fengu grunnupplýsingar um land og þjóð. Sherihan er eini skiptineminn frá Egyptalandi hér á landi á vegum AFS á þessu, ári og hún veit ekki um aðra landa sína sem hafa farið áður sem skiptinemar til Íslands.