Fann hjá mér þörf til að læra meira
Árið 2017 er ár hinna stóru lífsáfanga hjá Fanný Maríu Brynjarsdóttur. Hún stefnir ótrauð á að ljúka stúdentsprófi af listnámsbraut í vor og þegar líður á árið fagnar hún fimmtugsafmæli sínu.
Oft hefur það verið orðað svo hér á heimasíðunni að aldrei sé of seint að setjast á skólabekk. Þetta er sígildur frasi en hann er alltaf jafn sannur og gildur og enn eitt dæmið um þetta er Fanný María Brynjarsdóttir.
Hún fæddist í Hrísey en flutti með fjölskyldu sinni níu ára gömul til Akureyrar og hefur búið þar síðan. Fór fyrst í Lundarskóla, síðan í Gagnfræðaskólann og loks í VMA veturinn 1986-1987 – í árdaga skólans – og lærði þar tækniteiknun. Af ýmsum ástæðum varð ekkert úr frekara námi á þessum árum, við tók stofnun fjölskyldu og hið daglega amstur. Mörgum árum síðar tók Fanný nokkur fög í fjarnámi VMA og í framhaldinu fann hún hjá sér þörf til að læra meira. Innst inni blundaði alltaf í henni að finna sköpunarþörfinni farveg og úr varð að árið 2013 ákvað hún að taka stökkið og innrita sig á listnámsbraut VMA. „Myndlist hafði alltaf verið mín sterka hlið hér á árum áður og ég hafði einfaldlega þörf fyrir að læra eitthvað á því sviði. Sem betur fer slapp ég inn í VMA áður en síðasta ríkisstjórn ákvað að takmarka aðgengi fullorðinna að framhaldsskólum. Það var einfaldlega mín gæfa að taka þetta skref og námið hér hefur verið æðislegt. Viðmót nemenda og kennara hefur verið einstaklega gott, kennararnir hér eiga það sameiginlegt að laða fram það besta í hverjum og einum nemanda. Ég er vissulega eldri en flestallir samnemendur mínir, en það breytir engu. Ég hef lært fullt af þeim og vonandi hafa þeir líka lært eitthvað af mér. Þegar ég horfi til baka hafa þessi ár hér gefið mér svo mikið og ég hef án nokkurs vafa fengið aukið sjálfstraust til þess að takast á við fjölbreytt skapandi verkefni í myndlistinni. Mér hefur þótt mjög skemmtilegt að takast á við mismunandi form myndlistar, hvort sem það eru málverk, vídeólist eða skúlptúrar, ég er opin fyrir öllu,“ segir Fanný María.
Sem fyrr segir blasir brautskráningin við í vor. Stúdentspróf af listnámsbraut. Langþráðum áfanga verður náð. Fanný segist ákveðin að halda áfram á sömu braut, hún hyggist afla sér frekari þekkingar í myndlistinni.
Á haustönn var Fanný María í áfanganum MYL 504 hjá Björgu Eiríksdóttur og þar vann hún tvær akrílmyndir á striga. Hér má sjá mynd hennar Morgunóra og hér er myndin Ein ég sit. Fyrrgreinda verkið er nú til sýnis á vegg gegnt austurinngangi skólans.