Gengið inn í Lamba
Einn af áföngum nemenda á fyrstu önn á íþrótta- og lýðheilsubraut nefnist „Útivist og heilbrigði“ og eins og nafnið gefur til kynna felst áfanginn í hverskonar útivist. Í áfanganum kynnast nemendur skipulagningu útivistarferða og skipuleggja síðan ferðir. Einnig fá þeir kynningu á því sem útivist getur haft fyrir líkama og sál. Auk útivistarferða heimsækja ýmsir aðilar nemendur og kynna þeim útiveru, ferðir og ferðamennsku.
Í þessari og síðustu viku fóru nemendahópar með kennurunum Ólafi H. Björnssyni og Jóhanni Gunnari Jóhannssyni í gönguferð inn í skálann Lamba á Glerárdal, sem er 3,5-4 tíma ganga. „Ferðirnar gengu afar vel, þrátt fyrir nokkra sára og þreytta fætur. Í hvorri ferð gistum við eina nótt í Lamba en þar er ekkert rafmagn. Olíukynding er í skálanum og við elduðum á gasi. Vatnið þurftum við að ná í út í læk. Nemendur stóðu sig mjög vel og ferðirnar voru þeim mikil upplifun og dýrmæt minning,“ sagði Ólafur H. Björnsson.
Hér eru myndir sem teknar voru í þessum skemmtilegu ferðum.