Draumar eru meginstefið
Það lá kannski beinast við að Ása María Skúladóttir færi í Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra á Sauðárkróki, enda búsett þar, en eftir spjall við námsráðgjafa í Árskóla á Sauðárkróki var niðurstaðan sú að fara í listnám í VMA. Ástæðan var einföld; frá blautu barnsbeini hefur Ása María haft mikinn áhuga á listsköpun og snemma komu í ljós ákveðnar vísbendingar um að hún ætti að stefna á það.
Haustið 2014 innritaðist Ása María á almenna braut í VMA og síðan lá leiðin á myndlistarlínu listnáms- og hönnunarbrautar. Stefnan er sett á brautskráningu í vor og því er eitt af stórum viðfangsefni á önninni að vinna lokaverkefni. Ása María segist vera að vinna að málverki sem öðrum þræði komi til með að vera sýn hennar á útlitsdýrkun sem sé nokkuð áberandi í samfélaginu.
“Ástæðan fyrir því að ég valdi að fara þessa leið í námi var einfaldlega sú að listnám er mín ástríða. Þetta er að einhverju leyti í genunum því listsköpun af ýmsum toga – bæði tónlist og myndlist – er í minni föðurætt. Eldri systir mín var líka hér á listnámsbraut og hún gat upplýst mig um ýmislegt varðandi námið,” sagði Ása María.
Eitt af því í myndlistinni sem alla tíð hefur heillað Ásu Maríu eru teiknimyndasögur. Hún minnist ófárra stundanna sem hún fletti bókunum um Tinna og hún nefnir einnig Ástrík og Sval og Val. Það kemur því ekki á óvart að Ása María ætlar að mennta sig frekar í teikningu. Hún stefnir að því til að byrja með að fara í Myndlistaskólann í Reykjavík á teiknibraut.
Uppi á vegg gegnt austurinngangi VMA er áhugavert akrílverk eftir Ásu Maríu sem hún málaði í áfanga hjá Björgu Eiríksdóttur. Draumkennt verk, enda segir hún að draumar séu meginstef verksins.
Öll árin sem Ása María hefur verið í VMA hefur hún búið á heimavistinni. Hún segist kunna því ágætlega. Það hafi verið töluvert stórt skref og stundum erfitt í byrjun að fara úr heimahögum og búa á heimavist en þetta hafi vanist ágætlega. “Að standa á eigin fótum með þessum hætti er í senn þroskandi og eflir manni sjálfstraust,” segir Ása María Skúladóttir.