Skemmtileg áskorun
„Mér líst mjög vel á þetta. Samkennarar mínir eru boðnir og búnir að setja mig inn í hlutina hér. Sem bæði kennari og brautarstjóri er vissulega eitt og annað sem þarf að setja mig vel inn í, þetta er afar skemmtileg áskorun og ég hlakka til komandi vikna og mánaða,“ segir Helgi Valur Harðarson, kennari og nýráðinn brautarstjóri byggingadeildar VMA.
Helgi Valur fór nokkuð óhefðbundna leið í námi. Hann lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Akureyri árið 2002 og stefndi þá að því að fara í læknisfræði. Svo fór þó ekki en þess í stað var hann í nokkra mánuði í líffræði í HÍ. Veturinn 2004-2005 var Helgi Valur í þjónustustörfum á skíðasvæði í Austurríki en tók síðan stóra u-beygju og fór í smíðanám í VMA og lauk því árið 2008. Fór síðar í byggingariðnfræði í Háskólanum í Reykjavík og tók kennsluréttindi í Háskóla Íslands. Síðustu þrjú árin hefur Helgi Valur kennt smíðar í Naustaskóla á Akureyri og raunar hefur hann einnig kennt í meistaraskólanum í fjarnámi VMA.
Samhliða náminu í VMA á sínum tíma segist Helgi Valur hafa starfað á sumrin við smíðar hjá Trésmiðju Ásgríms á Akureyri og allar götur til ársins 2015. „Það má kannski segja að smíðarnar séu að einhverju leyti í blóðinu. Í fjölskyldunni eru margir iðnaðarmenn og sem sumarstarfsmaður á tjaldsvæðinu á Hömrum í mörg sumur þurfti maður oft að grípa í smíðaverkfærin,“ rifjar Helgi Valur upp.
Aðsókn að byggingadeildinni núna á haustmisseri er mjög góð. Nýnemar eru 36 talsins og þeim er skipt í þrjá hópa. Það verður því í mörg horn að líta í vetur fyrir Helga Val og samkennara hans í byggingadeildinni.