Þegar saman fer endurnýting og listsköpun
Margir listamenn fara þá leið í listsköpun sinni að endurnýta efni í verk sín. Nemendur á listnáms- og hönnunarbraut í VMA fá m.a. þjálfun í þessu og var gaman að fylgjast með á dögunum hvernig nemendur á fyrsta ári í áfanganum Listir og menning endurnotuðu ýmsa gamla hluti og létu hugann reika. Útkoman var fjölbreytt og skemmtileg.
Helga Björg Jónasardóttir og Véronique Anne Germaine Legros kenna áfangann LIME – Listir og menning. Á lýsingu á áfanganum segir: „Í áfanganum fær nemandinn innsýn í menningarsöguna og hvernig þróun og víxlverkun listgreina og samfélags mótar þann nútíma sem við lifum í. Nemandinn kynnist forsendum skynjunar mannsins og margvíslegum möguleikum hans til listrænnar tjáningar. Nemandinn kannar fagurfræðilegar og hugmyndalegar forsendur lista og hvernig þróun þeirra tengist breytingum samfélagsins á hverjum tíma s.s í tengslum við trúarbrögð, tæknilegar nýjungar, þróun í vísindum og stjórnmálum. Nemandinn rannsakar þætti sem snúa að skynhrifum. Hann vinnur verkefni þar sem hann kannar mismunandi listgreinar, tengsl þeirra innbyrðis og ólík stíltímabil.“
Á dögunum fóru nemendur í áfanganum með kennurum sínum á Listasafnið á Akureyri og kynntu sér sérstaklega tvær sýningar sem eiga það sameiginlegt að listamennirnir sem að þeim standa leggja áherslu á að endurnýta efni í verk sín og nota hversdagsleg efni sem fæstir tengja við listsköpun. Þetta er annars vegar Aðalheiður S. Eysteinsdóttir sem er með sýninguna Hugleiðing um orku og hins vegar Hjördís Frímann og Magnús Helgason með sýninguna Hugmyndir.
Þessi heimsókn nemendanna í áfanganum Listir og menning á Listasafnið á Akureyri var þeim innblástur í verkefni þar sem hugmyndaflugið fékk vængi. Sem fyrr segir var útkoman skemmtileg. Mismunandi var hversu vel mótaðar hugmyndir nemendurnir höfðu þegar þeir hófu sína vinnu. Sumir höfðu ákveðna skoðun á því hvað þeir vildu kalla fram en aðrir byrjuðu á sinni vinnu og létu verk sín þróast á leiðinni. Hér eru myndir sem voru teknar af nemendum í Listum og menningu að vinna skúlptúra sína.