Skiptinemar í VMA
Það er alltaf áhugavert og skemmtilegt fyrir skiptinema að fara í gjörólíkt land og upplifa aðra siði og venjur og tala nýtt og oft framandi tungumál. Núna á haustönn eru þrír skiptinemar við nám í VMA – tvær stúlkur frá Belgíu – Jana Fermeylen (18 ára) og Louise Cerpentier (16 ára) – og franskur piltur, Maxime Teilleux (17 ára).
Þau eru sammála um að það sem hafi dregið þau til Íslands hafi verið hversu framandi landið væri í þeirra huga. Þau sögðust ekki hafa vitað margt um landið en vitaskuld séð margar ljósmyndir sem hafi gefið til kynna fallega nátturu. En um daglegt líf sögðust þau ekki hafa vitað margt. Maxime sagðist hafa viljað dvelja í landi þar sem loftslag væri frekar kalt, honum líkaði ekki hitinn og kysi fremur að vera í kaldara loftslagi. Ekki síst þess vegna hafi Ísland orðið fyrir valinu.
Jana og Louise nefna að frjálsræðið á Íslandi hafi komið þeim skemmtilega á óvart og þær upplifi sig öruggar hér. Í stærri borgum Belgíu sé nánast útilokað fyrir ungar stúlkar á þeirra aldri að ganga úti á götu, það geti hreinlega verið hættulegt. Annað sé uppi á teningnum hér. Það hafi tekið tíma fyrir þær að átta sig á þessu.
Það sem skipti máli við að fara frá sínu heimalandi um stundarsakir sem skiptinemar segja þau öll að sé að takast á við ný og ögrandi verkefni í nýju landi, það sé afar þroskandi. Gaman sé að kynnast nýjum siðum og ólíkri menningu. Jana segist hafa prófað að borða hvalkjöt og lunda og Louise er búin að upplifa göngur og réttir sem henni fannst vera bráðskemmtilegt. Skólakerfið er vissulega öðruvísi hér en í Belgíu og Frakklandi. Þeim finnst öllum sérstakt á Íslandi að nemendur séu í grunnskóla í tíu ár og fari síðan í framhaldsskóla. Þessu sé öðruvísi háttað í þeirra heimalöndum. Þannig segir Louise að þegar hún fari heim til Belgíu í byrjun desember nk. fari hún aftur í framhaldsskólann sinn þar og ljúki honum í vetur, síðan taki við háskólanám. En Louise og Jana eru sammála um að í VMA séu mun meiri möguleikar til þess að velja áfanga en í skólum þeirra í Belgíu. Þar sé námið fyrirfram ákveðið og gefi litla sem enga möguleika til breytinga.
Öll eru þau þeirrar skoðunar að íslenskan sé snúið tungumál að læra en þó má heyra að nú þegar eru þau farin að nota íslensk orð og mynda setningar, þó svo að þau séu ekki búin að vera á landinu nema í um fimm vikur. Louise hefur skamman tíma til stefnu til þess að læra tungumálið en Jana og Maxime hafa allan veturinn til þess að takast á við íslenskuna.
En er eitthvað eitt öðru fremur sem upp í hugann kemur sem þeim hefur fundist framandi á Íslandi? Það stendur ekki á svari hjá þeim belgísku: Að vera naktar í sturtunum í sundlaugunum með ókunnugum konum. Þetta fannst þeim framandi og heldur óþægilegt í byrjun en kippa sér ekki upp við þetta lengur.