Unnu fjarvíddarverk á skólagólfi
Einn af þeim þáttum sem nemendur hafa verið að glíma við í myndlistaráfanganum Formfræði og fjarvídd er að vinna að fjarvíddarverki á gólfinu við norðurinngang VMA. Vinnunni lauk í gær og ekki fer á milli mála þegar þessar myndir eru skoðaðar að vinnan skilaði tilætluðum árangri, frá ákveðnu sjónarhorni er horft niður í hyldýpis gjá og yfir hana er brú. Algjörlega magnað hvernig augað nemur myndverkið úr fjarlægð. Hér eru fleiri myndir sem Hilmar Friðjónsson tók í gær.
Hallgrímur Ingólfsson kennir þennan áfanga á móti Önnu Maríu Guðmann. Hann hefur unnið slíkt fjarvíddarverk með nemendum undanfarin ár á skólagólfinu. Hér má sjá dæmi um þessi verk. Í þessu tilviki gerðu nemendur nokkrar skissur af þrívíddarverki og þessi teikning varð fyrir valinu til útfærslu á gólfflísarnar.
Í Formfræði og fjarvídd er, eins og segir í áfangalýsingu, miðað við að „nemandinn efli næmi sitt fyrir fjarvídd og myndbyggingu á tvívíðum fleti og dýpki skilning á grundvallaratriðum myndbyggingar, formfræði og hönnunar.“