Húsasmíðin skemmtilegri en ég gat ímyndað mér
Eins og greint hefur verið frá hlutu á dögunum fjórir nemendur í VMA, þrír núverandi og einn fyrrverandi, styrki úr Hvatningarsjóði Kviku. Ein fjórmenninganna er Ester María Eiríksdóttir, sem er á öðru ári í húsasmíði í VMA. Hún hlaut eina milljón króna í styrk og svo skemmtilega vill til að tvíburabróðir hennar, Jón Örn, sem stundar nám í grunndeild rafiðna í Reykjavík, fékk sömu styrkupphæð. Þau systkinin, sem eru frá Hofósi, fengu því í sinn hlut tvær af þeim fimm milljónum króna sem komu til úthlutunar úr sjóðnum að þessu sinni. Ester segir að það hafi komið þeim systkinum í opna skjöldu að fá þessa styrki. Bróðir hennar hafi vitað af því að hægt væri að sækja um þessa styrki og þau hafi sest niður sl. sumar og útfyllt styrkumsóknir þar sem þau greindu frá þeirra námi, markmiðum þeirra og hugmyndum um framtíðina, áhugamálum o.fl. „Eiginlega byrjaði þetta sem hálfgert flipp hjá okkur systkinunum en þegar við síðan settumst niður og útfylltum styrkumsóknirnar reyndun við að vanda okkur. En að umsóknirnir skyldu verða til þess að við fengum svo styrkina datt okkur aldrei í hug,“ segir Ester.
Sem fyrr segir er Ester á öðru ári í húsasmíði í byggingadeild VMA. Hún segist hafa mjög gaman af bóknámi og því hafi hún fyrst sótt um að fara í bóknám í MA en á síðustu stundu ákveðið að breyta um stefnu. Við nánari skoðun hafi hún séð þann möguleika að ljúka iðnnámi og taka jafnframt stúdentspróf og þar með taldi hún sig standa sterkar að vígi fyrir áframhaldandi nám. „Ég held að allt of fáir hugsi út í þennan möguleika og ég veit þess dæmi að forráðamenn nemenda ýta á þá að fara í bóknám til þess að ljúka stúdentsprófi, sem er ekki nógu gott. Hjartað verður að ráða för þegar nemendur velja sér nám í framhaldsskóla og það er mikilvægt að við val á námi hafi nemendur það hugfast að þeir eru alls ekki að loka neinum leiðum með því að fara í verknám, þvert á móti eru þeir að styrkja sinn grunn því auk viðkomandi verknáms eru þeim allar leiðir opnar til þess að taka stúdentspróf, eins og ég ætla að gera. Ég sé síður en svo eftir því að hafa valið þessa leið í námi, þetta er skemmtilegra en ég gat ímyndað mér. Það er gaman að vinna í höndunum og sjá eitthvað verða til. Það er með smíðarnar eins og annað nám að þær eru ekki fyrir allar stelpur en þær eru heldur ekki fyrir alla stráka. Það sem fyrst og fremst skiptir höfuðmáli í þessu er að hafa brennandi áhuga á því sem maður er að læra. Ég viðurkenni alveg að að mér læddist sú hugsun að ég væri kannski ekki nógu líkamlega sterk til þess að læra húsasmíði en það er algjör vitleysa. Það sem fyrst og fremst skiptir máli er nákvæmni og vandvirkni en umfram allt áhugi. Eins og staðan er núna er stefnan að ljúka sveinsprófi í húsasmíði og sömuleiðis ætla ég að ljúka stúdentsprófi. Hvað síðan tekur við verður að koma í ljós en verkfræðin heillar. Ég hef mjög gaman af raungreinum og tók þegar ég var í tíunda bekk á Hofsósi framhaldsskólaáfanga í stærðfræði í Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra á Sauðárkróki. Ég er því komin vel á veg með stærðfræðiáfanga til stúdentsprófs,“ segir Ester.
Liður í námi nema í húsasmíði á öðru ári er að byggja sumarbústað. Frá annarbyrjun hafa nemendur smíðað veggi bústaðarins og grindina en áður en langt um líður verða einingarnar færðar út og bústaðurinn reistur. Hér eru myndir sem voru teknar í vikunni þegar nemendur voru að smíða veggi bústaðarins undir handleiðslu Braga Óskarssonar kennara.
Smíðagen eru í fjölskyldu Esterar því faðir hennar er lærður málmsmiður og hann kennir m.a. smíðar í grunnskólanum á Hofsósi. Ester segist hins vegar ekki hafa haft reynslu í smíðum þegar hún hóf nám fyrir ári síðan í grunnnáminu í byggingadeildinni. „Í þessu námi er ég til þess að læra að verða smiður, svo einfalt er það,“ segir Ester.
Áður er getið um tvíburabróður Esterar en hún á einnig tvær yngri systur. Sú eldri, Inga Sara, hóf nám í MA núna í haust og er því ári yngri en Ester. Þær systur deila herbergi á Heimavist MA og VMA. Yngri systirin er 11 ára gömul í foreldrahúsum á Hofsósi.
En hvernig hyggst Ester nýta milljónina sem hún fékk í styrk úr Hvatningarsjóði Kviku? „Í eitthvað gáfulegt, í það minnsta fer hún ekki í nammibarinn í Hagkaup,“ segir hún og hlær. „Þessir peningar verða settir til hliðar um sinn og nýttir á einhvern hátt sem tengist námi mínu í framtíðinni. Hvernig nákvæmlega hef ég ekki ákveðið,“ segir Ester María Eiríksdóttir.