Ný bók eftir Rósu Rut Þórisdóttur um hvítabirni á Íslandi
Að skrifa yfirgripsmikið verk um ísbirni var ekki efst í huga Rósu Rutar Þórisdóttur þegar hún lauk stúdentsprófi frá Verkmenntaskólanum á Akureyri árið 1993. En eins og oft gerist tekur lífið óvænta stefnu og núna aldarfjórðungi frá því að skólavistinni í VMA lauk hefur Rósa sent frá sér bókina „Hvítabirnir á Íslandi“. Bókin, sem er í stóru broti og mikil að vöxtum, er gefin út af Bókaútgáfunni Hólum og tileinkuð minningu Þóris Haraldssonar, föður Rósu, sem lengi var líffræðikennari við Menntaskólann á Akureyri.
Rósa Rut er fædd og uppalin á Akureyri þar sem foreldrar hennar störfuðu um árabil. Sem fyrr segir kenndi Þórir faðir hennar líffræði í MA um árabil og Una Aðalbjörg Sigurliðadóttir móðir hennar starfaði lengi á skrifstofu VMA. Hún býr nú í Kópavogi. Þórir lést árið 2014 á sextugasta og sjöunda aldursári.
Leikari hjá LA í Ættarmótinu
Rósa Rut rifjar upp að hún hafi byrjað í MA en fært sig upp á Eyrarlandsholtið í VMA þaðan sem hún lauk stúdentsprófi af uppeldisbraut árið 1993. Á þessum tíma var ekki ofarlega í huga Rósu að fara í háskóla enda segir hún að lesblindan hafi gert henni nokkuð erfitt fyrir í bóknámi. Henni var efst í huga að verða leikkona og fékk heldur betur draum sinn uppfylltan þegar hún fékk hlutverk í leikritinu Ættarmótinu eftir Böðvar Guðmundsson sem Leikfélag Akureyrar frumsýndi í desember 1990. Þar lék hún með stórkanónum á borð við Ragnhildi Gísladóttur, Valgeir Skagfjörð, Björn Inga Hilmarsson, Jón Stefán Kristjánsson, Sunnu Borg og Marinó Þorsteinsson. Þrátt fyrir að þetta leiklistarævintýri komst Rósa þó að því að leiklistina myndi hún ekki vilja leggja fyrir sig. Hún brá sér til Bretlands í tungumálanám og í framhaldinu vaknaði áhugi á að fara í háskólanám, þrátt fyrir að slíkt hefði hreint ekki verið inni í myndinni nokkrum árum áður.
Í mannfræði í HÍ
Hún fletti í gegnum kennsluskrá HÍ og fannst fjömargt áhugavert koma til greina en gat ómögulega gert upp við sig hvar hún ætti að bera niður. Hún lokaði kennsluskránni og hugsaði með sér að hún veldi þá grein sem hún lenti á þegar hún opnaði kennsluskrána aftur. Lýsing á lögfræði reyndist vera á opnunni þar sem hún opnaði bókina. Nei, lögfræði höfðaði ekki til Rósu. Hún lokaði bókinni aftur og reyndi í annað skipti, þá blasti við henni lýsing á mannfræði. Áhugaverð grein fannst henni við nánari lestur og úr varð að mannfræði varð fyrir valinu í HÍ og Rósa lauk BA-prófinu árið 1997. „Ég hafði ekki hugmynd um hvað mannfræði var og því var hún mér algjörlega framandi. En mannfræðin heillaði mig fljótt og ég hafði frábæra kennara eins og Gísla Pálsson, Sigríði Dúnu Kristmundsdóttur og Harald Ólafsson,“ rifjar Rósa Rut upp. Í náminu fór hún m.a. í námsferðir til Grænlands og Kína og áhuginn á lífinu á norðurslóðum vaknaði fljótt. Í framhaldinu ákvað Rósa að fara til London í meistaranám í mannfræði, í svokallaða sjónræna mannfræði, þar sem áherslan var á vinnslu kvikmyndaefnis sem tengist faginu. Rósa kynntist m.a. áhugaverðum myndum sem Frakkinn Jean Malaurie hafði tekið af lífi fólks á norðurslóðum og heillaðist svo af þeim að úr varð að hún fór til Parísar í doktorsnám í mannfræði. Fyrsta árið lærði hún frönskuna, sem hún segist ekki hafa kunnað stakt orð í á þeim tíma, en síðan hellti hún sér í doktorsnámið, sem fólst í því að greina þessar áhugaverðu myndir Jean Malaurie. Hún lauk doktorsnáminu og starfaði m.a. í eitt ár á Stofnun Vilhjálms Stefánssonar á Akureyri. Rósa segist lengi hafa horft til þess að búa á Akureyri en af því hafi þó ekki orðið, þess í stað búi hún í Brussel í Belgíu með manni sínum og 5 og 8 ára gömlum sonum þeirra.
Hvítabirnir á Íslandi frá landnámi til vorra daga
Þórir heitinn Haraldsson faðir Rósu hafði í áratugi safnað miklum fróðleik um ísbirni. Hann hélt fyrirlestra um hvítabirni og skrifaði greinar og horfði til þess að vinna betur úr þessu efni þegar starfsævinni lyki. Af því varð ekki því sem fyrr segir féll Þórir frá árið 2014, 66 ára að aldri. Rósa ákvað þá að fara í gegnum allt það mikla magn heimilda sem faðir hennar hafði safnað til þess að mynda sér skoðun á því hvernig væri best að vinna úr þeim. Það gerði hún og ákvað að áherslan í úrvinnslunni yrði meira út frá mannfræðinni en líffræðinni. Þórir hafði ekki aðeins safnað upplýsingum um hvítabirni sem hefðu gengið á land á Íslandi heldur einnig hvítabirni sem hefðu komið við sögu í öðrum löndum og að vonum var líffræðilegi þátturinn honum ofarlega í huga. Rósa ákvað að leggja áherslu á hvítabirni sem gengið hefðu á land hér á Íslandi og skrá þá sögu eins og heimildir væru til um frá landnámi og til dagsins í dag. Þessar viðamiklu og merku frásagnir eru skráðar í tímaröð í bókinni, auk ýmissa annarra frásagna sem tengjast viðfangsefninu. Myndefni í bókinni er einnig ríkulegt. Eftir að hafa farið ítarlega í gegnum heimildirnar segist Rósa hafa verið í um tvö ár að skrifa bókina og síðasta árið hefur farið í frágangsvinnu og uppsetningu. „Pabbi var með mér í þessari vinnu, ég hafði mynd af honum á borðinu þegar ég var að skrifa,“ segir Rósa sem kom í VMA í gær og kynnti bókina.
Sátt við útkomuna
Eitt af þeim atriðum sem út af stóðu þegar Rósa fór að skoða heimildasafn föður síns var nákvæm skráning þeirra. Afla þurfti mikilla upplýsinga til þess að fylla upp í götin í heimildaskránni og þar segist Rósa hafa notið ómetanlegrar hjálpar Sigríður Sigurðardóttur, bókavarðar í VMA. „Sirrý gerðist sérstakur rannsóknafræðingur fyrir mig og gat grafið upp ótrúlegustu upplýsingar fyrir heimildaskráninguna sem ég er henni afar þakklát fyrir,“ segir Rósa og bætir við að eðli málsins samkvæmt hafi henni ekki verið unnt að vinna allt sem þurfti að vinna við samantekt bókarinnar í Brussel, hún hafi nauðsynlega þurft að grúska töluvert hér heima. „Sumarið 2017 sat ég löngum stundum á Amtsbókasafninu hér á Akureyri og fór í gegnum ótal heimildir,“ segir Rósa og kveðst vera ánægð með útkomuna. „Já, ég er mjög sátt við útkomuna og afskaplega glöð yfir að hafa gert þetta. Þetta er efni sem snertir marga og er hluti af okkar sögu,“ segir Rósa Rut Þórisdóttir.
Bókarkynningar í HA og Pennanum
Í hádeginu í dag, kl. 12-13, kynnir Rósa Rut bókina í Borgum í Háskólanum á Akureyri og á morgun, fimmtudag, verður hún kl. 17-19 í Pennanum-Eymundsson með kynningu á bókinni og áritar eintök fyrir þá sem þess óska.