Listnemar í fræðslu- og menningarferð í höfuðborginni
Í byrjun þessarar viku var 31 nemandi af listnáms- og hönnunarbraut VMA ásamt kennurunum Véronique Legro, Helgu Björg Jónasardóttur og Örnu G. Valsdóttur í fræðslu- og menningarferð í Reykjavík. Hópurinn fór í rútu til höfuðborgarinnar sl. sunnudag og kom aftur seint sl. þriðjudagskvöld. Ferðin heppnaðist í alla staði afar vel
Strax og komið var suður til Reykjavíkur sl. sunnudag var farið beint í Marshallhúsið svokallaða vestur á Granda þar sem er margt að skoða, Nýlistasafnið, Kling & Bang og Stúdíó Ólafs Elíassonar.
Síðastliðinn mánudag var þéttskipuð dagskrá. Fyrst var farið í Tækniskólann og skoðaðar ýmsar námsbrautir, t.d. margmiðlun, 42 Framtíðarstofa og hönnunardeild. Síðan lá leiðin í Stúdíó Sýrland þar sem Tækniskólinn er með kennslu í hljóðvinnslu.
Næst lá leiðin í Listaháskólann að Laugarnesvegi 91 og þar skoðaði hópurinn t.d. myndlistar- og sviðlistadeildina. Þá var farið upp í Þverholt 11 þar sem hönnunar- og arkitektúrdeild skólans er til húsa. Þar er boðið upp á nám til BA-prófs í arkitektúr, fatahönnun, grafískri hönnun og vöruhönnun.
Mánudeginum lauk með heimsókn hópsins í Hafnarhúsið þar sem Listasafn Reykjavíkur er m.a. til húsa.
Síðastliðinn þriðjudag var Myndlistaskólinn í Reykjavík sóttur heim og einnig var m.a. kíkt í heimsókn í Kvikmyndaskóla Íslands. Áður en hópurinn hélt heim á leið var litið við á Kjarvalsstöðum.
Kennararnir þrír sem fóru með hópum segja að ferðin hafi tekist mjög vel og nemendur orðið margs vísari. Þeir segja að slíkar ferðir séu m.a. til þess fallnar að gefa nemendum tækifæri til þess að afla upplýsinga um þá fjölbreyttu möguleika sem eru í boði í listnámi og tengdum greinum hér á landi að loknu námi í VMA, hafi þeir áhuga á að halda áfram á þessari braut.