Góður stuðningur við rafeindavirkjun í VMA
Það er gömul saga og ný að gott og náið samstarf VMA og atvinnulífsins er beggja hagur, enda er skólinn að mennta framtíðarstarfsmenn í hinum ólíku greinum atvinnulífsins. Hjá fjarskipta- og þjónustufyrirtækjunum Tengi hf. og Netkerfum og tölvum ehf. á Akureyri starfar fjöldi rafeindavirkja, margir þeirra hafa lokið námi sínu í rafeindavirkjun í VMA. Í gegnum tíðina hefur rafiðnardeild skólans notið mikils velvilja þessara tveggja fyrirtækja, með því til dæmis að taka á móti nemendum í rafeindavirkjun í námskynningar og fyrirtækin hafa ítrekað látið deildinni í té, án endurgjalds eða með ríkulegum afslætti, tækjabúnað og ýmsa hluti sem hún hefur þurft á að halda til kennslu.
Haukur Eiríksson, kennari í rafeindavirkjun, segir það gulls ígildi fyrir deildina að njóta velvildar fyrirtækja eins og Tengis hf. og Netkerfa og tölva ehf. Nýverið hafi deildin til dæmis fengið hjá Netkerfum á góðum kjörum ljósleiðaratengivél, routera og ýmsan annan búnað sem komi að góðum notum og sé í raun nauðsynlegur til þess að gera nemendum kleift að kynnast búnaði sem þeir síðan noti þegar komið sé út á vinnumarkaðinn. Þá nefnir Haukur að á þessari önn hafi allir nemendur á sjöttu önn rafeindavirkjunar verið í starfskynningu hjá Tengi hf. og fengið þannig að kynnast þeim verkefnum sem fyrirtækið vinni frá degi til dags.
Gunnar Björn Þórhallsson, framkvæmdastjóri Tengis og Netkerfa og tölva, og Karel Rafnsson, sölustjóri Netkerfa, komu í heimsókn á dögunum í rafeindavirkjunina í VMA og fengu kynningu á náminu. Þeir segja afar mikilvægt að styðja eins vel við námið í VMA og þeim sé mögulegt, enda hafi margir starfsmenn beggja fyrirtækja lokið námi frá VMA. Þess vegna leitist fyrirtækin við að bregðast jákvætt við öllum óskum og beiðnum sem komi frá skólanum í því skyni að styðja og efla námið þar.
Hjá Tengi og Netkerfum og tölvum starfa samtals um fjörutíu manns. Tengir hf. sérhæfir sig í fjarskiptalausnum fyrir heimili og fyrirtæki, þ.m.t. lagningu ljósleiðara, nettengingar og síma- og sjónvarpsdreifingu. Netkerfi og tölvur ehf. sérhæfir sig hins vegar í sölu og þjónustu á tölvu- og samskiptabúnaði og ráðgjöf á því sviði.