Tilþrif á skíðaklossum við upphaf heilsuviku
Þessi vika er heilsuvika í VMA og verða ýmsar uppákomur af því tilefni. Vorhlaup VMA á morgun er einn af þessum dagskrárliðum vikunnar.
Heilsuvikunni var ýtt úr vör í gær með léttu sprelli utan dyra. Efnt var til kapphlaups – tveir í hvoru liði – sem var í hæsta máta óhefðbundið því keppendur voru í skíðaklossum. Ekki beint heppilegasti búnaðurinn til þess að hlaupa en keppendur létu það ekki á sig fá og sýndu mikil tilþrif. Allir fjórir þátttakendur fengu að launum endurgjaldslausa skráningu í Vorhlaup VMA á morgun, miðvikudag, og sigurvegarar skíðaklossahlaupsins fengu þar að auki lítil páskaegg.
Þessar myndir voru teknar af þessu tilefni í gær og einnig má sjá Önnu Berglindi Pálmadóttur, kennara og ofurhlaupara, taka fyrstu tökin á róðrarvélinni sem verður þessa viku á sviðinu í Gryfjunni. Allir eru hvattir til þess að taka nokkur róðrartök – að lágmarki í eina mínútu. Ef vel gengur væri gaman að ná í þessari viku vegalengdinni til höfuðborgarinnar.