Mikilvægt að virða mörk
Sex nemendur í uppeldisfræðiáfanga hjá Valgerði Dögg Jónsdóttur unnu verkefni um sjúka ást, sem er titill átaks sem Stígamót standa fyrir. Um er að ræða forvarnaverkefni gegn ofbeldi sem ætlað er ungu fólki á aldrinum 13-20 ára. Með átakinu er vakin athygli á einkennum heilbrigðra, óheilbrigðra og ofbeldisfullra sambanda. Nemendurnir sex eru: Alida Milla Möller Gautadóttir, Árni Már Guðfinnsson, Díana Snædís Matchett, Emma Ósk Kristjánsdóttir, Shophie Hanna Goring og Sveinbjörn Hjalti Sigurðsson. Hluti verkefnisins var að halda fyrirlestur um efnið, sem nemendurnir gerðu í M01 í heilsuviku VMA í síðustu viku. Vegna mikillar aðsóknar á fyrirlesturinn var hann endurtekinn og aftur var fullt út úr dyrum.
Sveinbjörn Hjalti Sigurðsson segir að í upphafi verkefnisins hafi nemendur haft samband við Stígamót og fengið efni. „Þetta var afar lærdómsríkt og við fræddumst mikið um þessi mál í þessu verkefni. Það skapaði miklar umræður í okkar hópi og ég segi fyrir mig að það vakti mig til umhugsunar um mikilvægi þess að virða mörk og það sé á hreinu hvar þau liggja,“ segir Sveinbjörn Hjalti. „Það sem skiptir máli er að fólk tali saman og í samböndum sé gagnkvæm virðing.“
Um þetta verkefni, Sjúk ást, er hægt að fá allar upplýsingar á vefsíðu þess og einnig á fésbókinni. Þar má meðal annars finna eftirtaldar tilvitnanir:
Afbrýðisemi er óttinn við að missa manneskju sem skiptir okkur miklu máli. Stundum er engin innistæða fyrir afbrýðiseminni og hún beinlínis notuð sem stjórntæki. Það getur eitrað sambandið og valdið hinni manneskjunni skaða. Taktu ábyrgð á eigin afbrýðisemi og leystu úr henni á farsælan máta.
Þegar farið er yfir mörk á kynferðislegan hátt er það kynferðisleg áreitni. Til dæmis að káfa, suða, þrýsta, ekki hlusta eða senda óumbeðin kynferðisleg skilaboð. Það getur valdið hinni manneskjunni skaða. Virtu mörkin.
Stafræn samskipti eru eins og öll önnur samskipti – þau þurfa að byggjast á virðingu og trausti. Þú átt ekki heimtingu á svari innan einhvers ákveðins tíma né geturðu gert kröfu um að hinn aðilinn upplýsi þig sífellt um ferðir sínar og félagsskap. Að senda endalaus skilaboð getur verið til marks um stjórnsemi, yfirgang og skort á trausti – ekki um ást og umhyggju.
Mörk segja til um hvers konar hegðun og samskipti við samþykkjum frá öðrum. Þau eru leiðbeiningar um það hvernig við viljum láta koma fram við okkur og hvernig við bregðumst við þegar einhver fer yfir mörkin okkar. Það skiptir jafn miklu máli að virða mörk annarra og sín eigin. Að fara yfir mörk annarra getur skaðað hina manneskjuna.
Samþykki er að eiga í samskiptum við hinn aðilann og virða mörk hans. Að tala saman á öllum stigum kynlífs – fyrir, eftir á og á meðan á því stendur. Að spyrja leyfis í staðinn fyrir að gera ráð fyrir að mega gera eitthvað.
Nemendurnir sex sem stóðu að verkefninu eru á hinum ýmsu brautum VMA. Sveinbjörn Hjalti er á fjölgreinabraut og er á lokaspretti námsins í skólanum. Hann segir það hafa verið afar lærdómsríkt að sitja þennan áfanga, hann sé fyrst og fremst gott veganesti fyrir lífið. Sjálfur segist hann stefna á nám í tölvufræði í Háskólanum í Reykjavík að loknu námi í VMA, býst þó við að vinna í eitt ár til þess að safna peningum fyrir áframhaldandi nám en síðan sé hann ákveðinn í því að fara í tölvufræði.