Breytt fyrirkomulag sem gefur góða raun
Núna eru þrettán nemendur á þriðja og síðasta námsári í hársnyrtiiðn í VMA og þegar litið var inn í tíma hjá þeim stóð yfir verklegt próf þar sem nemendur fengu nokkuð frjálsar hendur með útfærslu á klippingu/hárgreiðslu.
Liður í námi hársnyrtinema er vinnustaðanám. Það deilist á fjórar síðari annir námsins og er í það heila allt að tuttugu vikur. Á þessari önn eru nemendur á hársnyrtistofum tvo daga í viku og fá þar þjálfun í flestu er lýtur að starfinu í framtíðinni. Nefna má herra- og dömuklippingu, hárlitun, permanent, hárgreiðslu, skeggsnyrtingu o.fl. Kennararnir Harpa Birgisdóttir og Hildur Salína Ævarsdóttir eru í nánu sambandi við hársnyrtistofurnar þar sem nemendur eru í vinnustaðanámi, fara í heimsóknir á stofurnar og fylgjast með nemendunum þar. Á þessari önn eru nemendur á hársnyrtistofunum Medullu, Amber, Zone, Adelle, Hársnyrtistúdíóinu Sunnu, Samson og Specktra og vill Harpa Birgisdóttir kennari þakka eigendum stofanna fyrir afar gott samstarf.
Harpa segir að þessi nemendahópur sé sá fyrsti sem VMA brautskráir samkvæmt nýrri námskrá og nýju fyrirkomulagi á vinnustaðanámi. Hún telur að þetta fyrirkomulag, sem hefur verið reynt með góðum árangri í Tækniskólanum, sé mikið framfaraspor og til þess fallið að auðvelda nemendum að komast á námssamning, sem hefur oft og tíðum reynst erfitt. Hluti nemendanna sem ljúka námi í vor er nú þegar kominn á námssamning.
Námssamningur felur í sér 72 vikna vinnu á stofu undir handleiðslu meistara. Sem fyrr segir er vinnustaðanámið á stofum í tuttugu vikur og þær dragast frá þessum 72 vikum. Að loknu vinnustaðanáminu standa því út af 52 vikur, sem þýðir að vinnustaðanámið styttir samningstímann.