VMA - Geysir - Stokkhólmur
Andrea Ósk Margrétardóttir brautskráðist sem stúdent af listnámsbraut VMA – textíllínu í desember 2017 eftir þriggja og hálfs árs nám. Hún hafði þá ekki mótaðar hugmyndir um hvað hún vildi leggja fyrir sig í framhaldinu en fatahönnun var þó ofarlega á blaði. Hún fór út á vinnumarkaðinn og vann lengst af í Geysi í Reykjavík og horfði jafnframt í kringum sig með nám. Niðurstaðan var skóli í Stokkhólmi þar sem hún er nú í fornámi fyrir BA-nám í fatahönnun.
„Skömmu eftir að ég útskrifaðist frá VMA flutti ég til Reykjavíkur og fór að vinna í Geysi á Skólavörðustíg. Þar starfaði ég í eitt og hálft ár og kom norður annað slagið og vann þá í Geysi á Akureyri. Undir lokin var ég vaktstjóri í Geysi í Reykjavík og fékk í því starfi góða og dýrmæta reynslu og kynntist fólki sem starfar í tískubransanum í Reykjavík. Ég hafði lengi stefnt að því að starfa á einn eða annan hátt í tískugeiranum og stutt námskeið sem ég tók sumarið 2017 í fatahönnun í London kveikti enn frekar í mér í þessum efnum. Ég var hins vegar ekki alveg viss á þeim tíma hvort ég hefði meiri áhuga á viðskiptalegri hlið tískunnar eða að hanna. Ég hallaðist að hinni skapandi hlið og fornámið sem ég ákvað að fara í hér í Stokkhólmi lýtur að fatahönnun. Ég sótti um fleiri skóla og hefði getað farið beint inn í BA-nám í fatahönnun í London og Oslo en niðurstaða mín var að fara í vetur í þetta fornám við Beckmans Designhögskola og freista þess síðan að komast inn í BA-nám í fatahönnun við þennan sama skóla næsta vetur. Það er vissulega krefjandi því einungis milli tíu og tuttugu eru teknir inn á hverju ári. Ég er mjög sátt við að hafa farið þessa leið. Vissulega hafði ég grunn úr námi mínu í VMA en ég læri líka helling af nýjum hlutum í fornáminu hér og það styrkir mig í að komast í BA-nám hér. Fornámið er í kvöldskóla og ég stefni að því að komast í vinnu í vetur til hliðar við námið,“ segir Andrea Ósk.
Hún segir að Stokkhólmur sé afar heillandi borg og hún veiti innblástur sem sé mikilvægt í skapandi námi. Þrátt fyrir að hafa verið aðeins í nokkrar vikur í Stokkhólmi segir hún að sænskan vefjist ekki sérlega mikið fyrir sér, enda hafi hún búið í Noregi fyrir sjö árum með fjölskyldu sinni og hafi þá lært norskuna ágætlega og haldið henni ágætlega við. Það komi sér vel núna, ekki sé stórkostlegur munur á sænskunni og norskunni. „Námið er á sænsku og mér hefur bara gengið ágætlega að skilja hana,“ segir Andrea.