Kynntu sér tölvustýrðar trésmíðavélar
Nýverið var nemendum í húsasmíði í VMA boðið í heimsókn á Tak innréttingar á Akureyri til þess að kynna sér starfsemina þar og ekki síst að sjá hvernig tölvustýrðar trésmíðavélar eru miðpunktur innréttingasmíði dagsins í dag. Heimsóknin var afar gagnleg og ánægjuleg og vill byggingadeildin koma á framfæri þakklæti til Taks fyrir kennsluna og móttökurnar. Hverjum nemenda var fært að gjöf efni í litla skápa sem tölvustýrða trésmíðavélin sagaði til og fræsti nöfn nemenda. Þeir settu skápana síðan saman. Hér má sjá einn slíkan skáp – til vinstri á myndinni. Til samanburðar er skápur sem var handsmíðaður að öllu leyti og tók að vonum mun lengri tíma að smíða en með nútíma tækni.
Auðunn Guðnason, verkstjóri hjá Tak innréttingum, segir að þessar tölvustýrðu vélar hafi komið til sögunnar hjá Taki árið 2003 og hafi verið algjör bylting. Tak hefur í dag yfir tveimur slíkum vélum að ráða. Stýring þeirra er annað hvort með lyklaborði eða á snertiskjá. „Tæknilega séð hafa vélarnar þróast og þær eru líka umtalsvert öflugri en í byrjun,“ segir Auðunn.
„Vélarnar stærðartaka plötur og bora. Í þeim smíðum við allar hliðar, botna og hurðir. Flest stykki í innréttingum í dag fara í gegnum þessar vélar. Það má því segja að tölvustýrðu vélarnar séu hryggjarstykkin í innréttingasmíðinnií dag,“ segir Auðunn.
Hann segir ánægjulegt að hafa fengið tækifæri til þess að kynna starfsemina fyrir nemendunum í byggingadeild VMA. „Okkur hefur fundist að nýútskrifaðir húsasmiðir hafi ekki gefið verkstæðisvinnunni gaum. Í gegnum tíðina hafa húsgagnasmiðir verið í meira mæli starfandi á verkstæðunum en í raun er þetta ekki húsgagnasmíði, miklu frekar er þetta hluti af húsasmíðinni vegna þess að það sem við erum að framleiða er naglfast. Þetta er því húsasmíðaverkstæði. Ímyndin hefur verið svolítið sú að verkstæðisvinnan sé fyrir þá eldri en útivinnan þá yngri en það er ekki svo. Þetta er vinna fyrir alla aldurshópa,“ segir Auðunn. Í það heila eru tíu starfsmenn á verkstæði Taks innréttinga og er stór hluti vinnunnar smíði innréttinga og hurða fyrir SS Byggi og fleiri verktaka. Einnig smíðar Tak fyrir aðra – bæði fyrirtæki og einstaklinga. Að sögn Auðuns hefur verið mikið að gera og horfurnar framundan segir hann að séu góðar.