Matur er mannsins megin
VMA er heilsueflandi framhaldsskóli sem þýðir m.a. að í mötuneyti skólans er boðið upp á hollan og staðgóðan heimilismat í hádeginu.
Rekstur mötuneytisins er og hefur verið í nokkur undanfarin ár í höndum fyrirtækisins Lostætis. Fyrirtækið hefur bæði í boði mat fyrir nemendur og kennara. Í hádeginu er íboðið upp á heitan mat auk ýmissa annarra léttra rétta. Sylvía Steinunn Benediktsdóttir þjónustufulltrúi Lostætis í VMA segir að áhersla sé á að hafa í boði fjölbreyttan heimilismat og er matseðill gefinn út hálfan mánuð í senn. Sylvía segir mismunandi hversu margir eru í hádegismat, það fari töluvert eftir því hvað sé á matseðlinum. Kjúklingurinn sé greinilega vinsælastur hjá nemendum en áberandi færri borði þegar fiskur er á borðum. Auk hádegismatarins býður mötuneytið upp á hollan viðbita á öðrum tímum.
Hér má sjá myndir sem voru teknar í mötuneytinu.
„Sem liður í verkefninu „Heilsueflandi framhaldsskóli“ var hætt fyrir tveimur árum að selja ýmsa óhollustu, t.d. sælgæti, gos og franskar kartöflur. Við það minnkaði aðsókn að mötuneytinu mjög greinilega. Aðsóknin er nú aftur að aukast sem gæti að einhverju leyti tengst því að krakkarnir venjast því nú strax í grunnskóla að borða eingöngu hollan mat,“ segir Sylvía.
Sylvía Steinunn er annars með mörg járn í eldinum því auk þess að stýra mötuneytinu í VMA er hún sjálf nemandi í skólanum. Á kvöldin og um helgar nemur hún matartækni og áætlar að ljúka fjórðu og síðustu önn námsins í vor. „Þetta er mjög skemmtilegt og gagnlegt nám. Liður í því er hálfsmánaðar starfsnám sem ég tek í desember á Landspítalanum. Á þeim tíma standa próf yfir hér í VMA og á meðan gefst tækifæri til þess að skjótast aðeins frá og taka starfsnámið.“