Rafeindavirkjun í covid
Þrátt fyrir allar takmarkanir af völdum Covid 19 segir Ari Baldursson kennari í rafeindavirkjun að bærilega hafi gengið í náminu að halda sjó, eins og hann orðar það.
Fjórtán nemendur eru í rafeindavirkjun á þessari önn. Áður en kom til núgildandi sóttvarnarreglna var verklegur hluti náms rafeindavirkja á nokkuð eðlilegu róli en eftir að ekki máttu fleiri en tíu vera saman í sóttvarnarými og til þess að virða tveggja metra fjarlægðarregluna þurfti að skipta námshópnum í tvo sjö manna hópa. Frá og með síðustu viku gildir sú regla, þangað til annað verður ákveðið, að hver hópur er aðra hverja viku í skólanum og vinnur heima að verkefnum sínum hina vikuna. Þessar myndir voru teknar í vikunni af nemendum í rafeindavirkjun í kennslustund hjá Ara Baldurssyni.
„Áður en hertar sóttvarnareglur komu til voru settir upp skilveggir á borðin í skólastofunni til þess að tryggja sóttvarnir nemenda sem allra best. Mér sýnist að þetta fyrirkomulag í náminu, þ.e. að hluti nemenda sé í skólanum og hinn helmingurinn heima, gangi ágætlega. Fyrst og fremst er þetta verkefnavinna og við kennararnir erum í góðu sambandi við nemendur sem vinna heima í gegnum netið og aðstoðum þá. Námið hjá okkur byggir mikið á fjölbreyttum verkefnum og námsmatið er í formi símats,“ segir Ari.