Engir tveir dagar eins hjá bifvélavirkjum
“Starf bifvélavirkja er fjölbreytt og engir tveir dagar eins. Miklar og örar tæknibreytingar í bílum gera það að verkum að bifvélavirkjar þurfa að fylgjast vel með og eru í raun í stöðugri endurmenntun,” segir Bóas Ingi Jónasson, verkstjóri í almennum viðgerðum á verkstæði Hölds ehf. á Akureyri.
Námið í VMA skiptir miklu máli
Bóas Ingi lærði á sínum tíma bifvélavirkjun í VMA og rifjar upp að hann hafi lokið náminu árið 2009. Hjá honum kom aldrei annað til greina en að læra bifvélavirkjun, hann orðar það svo að hann hafi haft brennandi áhuga á bíla- og vélaviðgerðum alveg frá barnæsku. Tvennt kom þar til. Hann var alinn upp í Garði í Þistilfirði og þar eins og almennt gerist til sveita þurfti að bjarga sér ef dráttarvélarnar og önnur landbúnaðartæki biluðu. Í annan stað ráku föðurbræður hans verkstæði á Reyðarfirði og Bóas horfði alltaf til þess að starfa hjá frændum sínum – sem hann og gerði að loknu námi í VMA. Síðar hóf hann störf hjá Höldi – á einu af stærstu verkstæðunum á Akureyri - og tók við verkstjórastarfinu þar á síðasta ári.
Bóas segir að almennt sé skortur á iðnmenntuðu fólki og þar séu bifvélavirkjar engin undantekning.. “Það skiptir verulega miklu máli fyrir okkur hér á svæðinu að Verkmenntaskólinn á Akureyri mennti bifvélavirkja. Áður en þetta nám hófst hér fyrir norðan fyrir nokkrum árum þurftu nemendur að fara suður og í mörgum tilfellum komu þeir ekki aftur norður. Það er og hefur verið skortur á fagmenntuðum bifvélavirkjum og því skiptir námið hér afar miklu máli,” segir Bóas Ingi.
Gott samstarf skóla og atvinnulífs er lykilatriði
Áskell Þór Gíslason, framkvæmdastjóri bílaþjónustu Hölds, segir það Höldi ehf. og öðrum fyrirtækjum á Norðurlandi í þjónustu við bílaeigendur mikilvægt að nám í bifvélavirkjun í VMA sé sem öflugast. “Við höfum því viljað leggja okkar af mörkum með því m.a. að lána deildinni ýmsan búnað og bíla til þess að nemendur hafi möguleika til þess að læra allar mögulegar viðgerðir. Það skiptir skólann miklu máli að námið sé sem allra best og það skiptir fyrirtækin í þessari starfsgrein ekki síður miklu máli að nemendur séu sem best undirbúnir fyrir að fara út á vinnumarkaðinn. Þetta er því beggja hagur,” segir Áskell og bætir við að á námstímanum sé fastur liður að nemendur komi í heimsókn á verkstæði Hölds og kynni sér þá fjölbreyttu starfsemi sem þar fari fram.
Bragi Finnbogason, brautarstjóri bíliðngreina í VMA, tekur undir að samstarf skólans við atvinnulífið á svæðinu sé afar mikilvægt og almennt sýni það námi í bifvélavirkjun mikinn og góðan stuðning sem ástæða sé til þess að þakka sérstaklega fyrir.
(Þessi grein birtist fyrst í blaðinu 20/20 sem var gefið út í mars af iðn- og verkmenntaskólum á Íslandi. Nafn blaðsins vísar til þess sameiginlega markmiðs skólanna að frá og með árinu 2020 skrái 20% grunnskólanemenda á Íslandi sig í iðn- og verknám).