Er bara rétt að byrja
Það eru ekki nema tvö ár síðan Akureyringurinn Otto Fernando Tulinius fór í auknum mæli að beina sjónum að langhlaupum. Hann hafði spilað fótbolta upp alla yngri flokka KA en þegar hann var kominn upp úr 2. flokknum setti hann fótboltaskóna til hliðar. Í stað þess að sitja við tölvuna löngum stundum ákvað hann að skynsamlegra væri að nýta tímann til hollrar hreyfingar. Hann fór í hlaupaskóna og hóf að hlaupa – og hleypur enn – með góðum árangri. Eins og greint hefur verið frá hér á heimasíðunni varð Otto framhaldsskólameistari í 10 km hlaupi í Flensborgarhlaupinu í Hafnarfirði á dögunum – raunar annað árið í röð. Hann er staðráðinn í því að halda markvisst áfram í hlaupum, í þeim hafi hann fundið sína fjöl.
Otto, sem er fæddur árið 1995, var á íþrótta- og lýðheilsubraut VMA en ákvað að skipta um braut í haust og er nú í grunnnámi bygginga- og mannvirkjagreina. Það sem af er segir hann að sér lítist afar vel á námið, það sé fjölbreytt og skemmtilegt, aðstaðan eins og best verði á kosið og kennslan góð. „Ég sé alls ekki eftir því að hafa valið þetta nám. Þetta er áhugavert og skemmtilegt og atvinnumöguleikarnir að námi loknu eru góðir,“ segir Otto.
En aftur að langhlaupunum. Otto segist hlaupa einn með sjálfum sér, hann reyni að taka markvissar æfingar þrisvar í viku. Stundum 5 km, stundum 15 km og stundum spretti. „Hlaup eru mjög góð leið til þess að slaka á og tæma hugann. Ég finn mig vel í þessu,“ segir hann. Hann útilokar ekki að fara í enn markvissari æfingar undir stjórn þjálfara og bætir við að á dögunum hafi hann verið á fyrirlestri hjá þeirri þekktu hlaupakonu Rannveigu Oddsdóttur.
Í Flensborgarhlaupinu fyrir tæpum hálfum mánuði hljóp Otto á tímanum 39:52 mín og var aðeins nokkrum sekúndum á undan skólafélaga sínum úr VMA, Jörundi Frímanni Jónassyni. Um tíma fór Jörundur fram úr Otto en hann segist hafa verið ákveðinn í því að endurtaka leikinn frá því í fyrra og sigra í framhaldsskólahlaupinu og því hafi hann gefið vel í á lokasprettinum.
Otto rifjar upp að hann hafi í fyrsta skipti hlaupið 10 km í Vorhlaupi VMA árið 2015 – fyrir röskum tveimur árum – og þá hafi hann lent í þriðja sæti á um 42 mínútum. Hann tók síðan þátt í Reykjavíkurmaraþoninu í hálfu maraþoni í fyrra og segir að það hafi ekki gengið sem best. Otto fór aftur í ár en þá gerði ælupesti það að verkum að hann gubbaði skömmu áður en ræst var í hlaupið en hann lét sig engu að síður hafa það að fara af stað. Fann þó um mitt hlaup að hann var algjörlega orkulaus og ekki fær um að fara lengra og hætti því hlaupinu. Hins vegar segir Otto að sér hafi gengið ljómandi vel í hálfu maraþoni í Akureyrarhlaupinu sl. sumar, þar hafi hann lent í þriðja sæti. Hann segist alveg eins reikna með að hann muni í framtíðinni leggja meiri rækt við hálft maraþon, það henti sér ágætlega. „Ég er bara rétt að byrja í hlaupunum,“ segir Otto og brosir.
Sem fyrr segir spilaði Otto fótbolta í yngri flokkum KA. Eftir nokkurt hlé í boltanum tók hann skóna fram að nýju í sumar og spilaði stöðu vinstri bakvarðar í liði Ungmennafélagsins Geisla í Aðaldal í fjórðu deildinni.