Sendinefnd VMA í heimsókn til Pinerolo
Dagana 24. til 27. mars sl. heimsóttu fjórir starfsmenn VMA, matvælabrautarkennarnir Ari Hallgrímsson, Heba Finnsdóttir og Marína Sigurgeirsdóttir og Íris Björk Hafþórsdóttir, sem m.a. sér um innkaup á matvælabraut, framhaldsskólann Istituto di Istruzione Superiore – Arturo Prever (IIS Prever) í Pinerolo, tæplega 40 þúsund íbúa bæ í Piedmont héraði á norðvestur Ítalíu. Ferðin var styrkt af Erasmus+ styrkjaáætlun ESB. Með heimsóknni var VMA að endurgjalda heimsókn Giuseppe Migliore, matreiðslukennara við þennan skóla, í VMA á síðasta ári. Heba Finnsdóttir segir heimsóknina hafa verið einstaklega ánægjulega og sérlega vel hafi verið tekið á móti þeim. Afar gott sé að spegla það sem unnið er að í VMA við það sem skólar eru að gera í útlöndum. Ýmislegt sé kunnuglegt en annað ólíkt, sem ekki síst helgist af ólíkri menningu og loftslagi.
Fyrirkomulag námsins í þessum framhaldsskóla í Pinerolo er frábrugðið VMA að því leyti að nemendur eru í honum í fimm ár, frá fjórtán ára aldri og útskrifast nítján ára. Milli sjö og átta hundruð nemendur eru í skólanum og kennararnir eru um 150, þar af vinna 50-60 stuðningskennarar með nemendum með sérþarfir. Þetta er fjölbrautaskóli þar sem áherslan er ekki síst á verknám og voru fulltrúar VMA fyrst og fremst að kynna sér ferðaþjónustu- og matvælanám í skólanum, þ.m.t. matreiðslu- og framreiðslunámið og einnig er pastry-braut, þar sem m.a. er lögð áhersla á margs konar bakstur, eftirrétti, skreytingar o.fl. Einnig er þarna námsbraut sem leggur áherslu á ræktun hvers konar, ekki síst ræktun á vínviði, að búa til osta úr mjólkurafurðum, hunangsframleiðslu o.fl.
Í raun má segja að skólinn sé tvískiptur. Í Pinerolo er hótel- og veitinganámið en landbúnaðarhlutinn er kenndur í Osasco, 5 km frá Pinerolo.
Eftir þriggja ára grunnnám þurfa nemendur að ákveða hvað þeir ætla að sérhæfa sig í, t.d. að verða kokkur, þjónn eða fara í ræktun, og þá er sérhæfingin á síðustu tveimur árum námstímans. Margir nemendur fara út að vinnumarkaðinn að skólanum loknum, sem lýkur á ekki ósvipaðan hátt og þekkist í verknámi hér á landi, með eins konar sveinsprófi. En sumir halda áfram námi á háskólastigi í einhverjum öðrum fögum.
En það er ekki bara námsbrautir í skólanum á sviði matvæla. Í vor útskrifast t.d. fyrsti námshópurinn af nýrri braut þar sem áhersla er á margmiðlun hverskonar.
Sendinefnd VMA fékk góða sýn á skólastarfið. Meðal annars voru kennararnir í verklegum tímum í bæði framreiðslu og matreiðslu, einnig í ensku og kvikmyndafræðum. Þá var góð kynning á húsnæði skólans, innkaupum og ræstingu og nemendur stóðu fyrir skemmtilegri leiðsögn um Pinerolo.