Fab Lab smiðja opnuð í húsnæði VMA eftir áramót
Fljótlega eftir áramót hefst starfsemi nýrrar Fab Lab smiðju á Akureyri og er hún staðsett í húsnæði VMA. Jón Þór Sigurðsson, verkefnastjóri smiðjunnar, hefur undanfarnar vikur unnið að standsetningu hennar og að gera hana klára áður en unnt verði að hefja þar formlega starfsemi. Jón Þór er þess fullviss að smiðjan eigi eftir að nýtast mörgum deildum í Verkmenntaskólanum afar vel.
Að þessari nýju Fab Lab smiðju stendur FabEy, hollvinafélag um stofnun og rekstur smiðjunnar, og var stofnfundur þess í nóvember í fyrra. Að félaginu stóðu í upphafi Nýsköpunarmiðstöð Íslands, VMA, Akureyrarbær og Símenntunarmiðstöð Eyjafjarðar.
„Fab Lab er stafræn smiðja sem er opin fyrir almenning og skólana hér á svæðinu. Fólk nýtir sér að vild aðstöðuna og þá tækni sem hér er í boði. Þessi starfsemi er ekki rekin í hagnaðarskyni, heldur er fyrst og fremst haft að leiðarljósi að fólk geti nýtt sér aðstöðuna á kostnaðarverði. Til þess að geta nýtt sér aðstöðuna er gott fyrir fólk að fara á námskeið og fá betri innsýn í þau forrit sem þarf að nota til þess að nýta sér tæknina í smiðjunni. Fab Lab smiðjan nýtist skólunum mjög vel – öllum skólastigum - og ég sé fyrir mér að hún nýtist sérstaklega vel fyrir frumkvöðla sem ellegar þyrftu að fá ýmsa þjónustu jafnvel erlendis frá.“
Jón Þór segir að staðsetning Fab Lab smiðjunnar sé mjög góð í VMA, en hún er í rými sem áður tilheyrði rafiðnaðardeild skólans og er á hægri hönd þegar gengið er inn um norðurinngang skólans. „Deildirnar hér í skólanum sem ég tel að komi mest til með að nota aðstöðuna hér í Fab Lab smiðjunni eru hér í næsta nágrenni, t.d. listnáms- og hönnunarbraut, byggingadeild, rafiðnaðarbraut og málmiðnaðarbraut. En það er vert að undirstrika að þó svo að Fab Lab smiðjan sé staðsett hérna í Verkmenntaskólanum er hún ætluð öllum öðrum skólum hér í bænum og öllum almenningi við Eyjafjörð. Ég er mjög ánægður með þetta rými fyrir smiðjuna hér í VMA, þetta er þrískipt svæði, í fyrsta lagi tölvustofan, í öðru lagi aðalrýmið og í þriðja lagi rými fyrir stóra fræsarann.
Símenntunarmiðstöð Eyjafjarðar heldur utanum væntanleg námskeið í Fab Lab, sem er stefnt á að hefja í febrúar nk. Við höfum ekki gengið frá dagskrá fyrir smiðjuna en það er þó ljóst að fyrripart dags, frá átta til fjögur, á skólatíma, verður hún nýtt af skólunum og eftir það verður hún opin almenningi. Þetta fer þó allt eftir því hversu vel skólarnir koma til með að nýta smiðjuna, ef þeir nýta hana ekki til fjögur mun öðrum væntanlega gefast kostur á að nýta sér hana lengur.“
Í Fab Lab smiðjunni eru þrívíddarprentarar þar sem hægt er að prenta út allskyns hluti, í fræsara er unnt að fræsa út rafrásir, laserskurðvélar skera og prenta – þær er t.d. unnt að nota til þess að prenta út myndir á nánast hvað sem er, vínylskeri sker út allskyns merkingar – t.d. til að setja á veggi eða í glugga og stór fræsari er síðan væntanlegur, en hann mun verða í sér rými áföstu Fab Lab smiðjunni. Ástæðan fyrir því að hann er hafður sér er sú að hann er tölvert hávaðasamur þegar hann er í gangi. Ónefndur er ýmiskonar smærri tæknibúnaður og tölvur sem verða í öðru aðalrými smiðjunnar, þar sem m.a. námskeiðin munu fara fram.
„Við stefnum að því að opna smiðjuna fyrir almenning í janúar og þá verður hún vonandi að mestu leyti búin þeim tækjum sem við þurfum. Ég er mjög bjartsýnn á þetta og hef fundið fyrir miklum velvilja bæði hér innan skólans og úti í bæ. Ég er því viss um að þetta mun ganga vel,“ segir Jón Þór Sigurðsson en hann er Akureyringur í húð og hár og á að baki þriggja ára nám í margmiðlunarhönnun í Barcelona á Spáni og síðan tók hann eitt ár til meistaraprófs í stafrænum arkitektúr.
Fab Lab stendur fyrir „Fabrication Laboratory“ og er alþjóðlegt net stafrænna smiðja með tækjum og tólum til að búa til nánast hvað sem er. Fab Lab gefur fólki á öllum aldri tækifæri til þess að þjálfa sköpunargáfuna og hrinda hugmyndum sínum í framkvæmd með því að hanna, móta og framleiða hluti með aðstoð stafrænnar tækni. Í Fab Lab smiðjum er tækjabúnaður af fullkomnustu gerð; fræsivél, vinylskeri, laserskeri, þrívíddarprentarar, rafeindaverkstæði til ýmiskonar tækjasmíða, rammar og efni til þess að þrykkja t.d. á boli, borðtölvur með uppsettum forritum o.fl.
Reynslan af þeim Fab Lab smiðjum sem þegar hefur verið komið á fót á sex stöðum hér á landi sýnir að tæknilæsi og tæknifærni almennings eykst og þær hvetja ungt fólk til tæknimenntunar, sem mikil þörf er á, þær auka þekkingu á persónumiðaðri framleiðslu, stafrænum framleiðsluaðferðum í iðnaði og síðast en ekki síst eru Fab Lab smiðjurnar til þess fallnar að efla nýsköpun í landinu.
Eigandi Fab Lab vörumerkisins er Massachusetts Institute of Technology í Bandaríkjunum en Nýsköpunarmiðstöð Íslands hefur umsjón með verkefninu á Íslandi. Áhersla er lögð á samstarf Fab Lab smiðjanna á Íslandi og mynda þær samstarfsvettvang, „Fab Lab Ísland”, þar sem þekkingu og reynslu er miðlað milli þeirra.