FAB-LAB smiðjan í fullan gang
Starfsemi FAB-LAB smiðjunnar í VMA er nú að komast í fullan gang að loknu sumarleyfi. Á fyrstu mánuðum þessa árs voru fyrstu námskeið í smiðjunni en á þessari önn mun breiðari aldurshópur en áður nýta sér smiðjuna.
Grunnskólanemendur á Akureyri munu fyrri part dags nýta sér aðstöðuna í FAB-LAB smiðjunni undir stjórn tveggja kennara úr Lundarskóla, Jónínu Vilborgar Karlsdóttur og Jóhannesar Áslaugssonar. Einnig munu m.a. hinar ýmsu deildir VMA nýta sér aðstöðuna á skólatíma.
Opnunartímar fyrir almenning verða síðdegis eins og hér má sjá.
Síðast en ekki síst mun í þessari viku hefjast 80 klukkustunda FAB-LAB smiðja á vegum Símenntunarmiðstöðvar Eyjafjarðar. Slíkar smiðjur voru í fyrsta skipti í boði á vorönn og tókust með miklum ágætum. Einnig stefnir SÍMEY að því að bjóða upp á fleiri styttri námskeið.
Jón Þór Sigurðsson verkefnastjóri FAB-LAB Akureyri segir að nú sé komin ágætis reynsla á smiðjuna og fyrir nokkrum vikum hafi endanlega verið gengið frá húsnæðinu með uppsetningu hurðar á milli aðalrýmisins og rýmis fyrir stóra fræsarann. Þar með er orðið innangengt milli allra rýma smiðjunnar sem Jón Þór segir að breyti miklu.