Fara nýja leið í íslenskunni
Oft eru farnar aðrar leiðir í námi en þær hefðbundnu til þess að nálgast viðfangsefnin. Núna á haustönn hefur verið steypt saman í einn íslenskuáfanga áföngunum ÍSL403 og ÍSL503 og til varð stór áfangi þar sem fjallað er um bókmenntir frá siðaskiptum til dagsins í dag. Í áfanganum eru fyrst og fremst nemendur sem eru komnir á þriðja og fjórða ár í náminu og koma þeir úr hinum ýmsum námsbrautum skólans.
Nemendur sitja tólf tíma á viku í þessum bókmenntaáfanga, fjóra tíma í senn. Þannig gefst gott tækifæri til þess að fjalla á víðtækan hátt í hvert skipti um einhver tiltekin viðfangsefni í íslenskum bókmenntum.
„Við höfum ekki nálgast íslenskar bókmenntir áður með þessum hætti og að mínu mati hefur þetta gefið góða raun. Nemendur taka þessu vel og margir hafa sýnt á sér nýja hlið. Ég held að þetta sé áhugaverð nálgun,“ segir Kristín Árnadóttir, íslenskukennari, sem er ein þriggja kennara sem koma að áfanganum.
Síðastliðinn föstudag kynntu nemendur afrakstur verkefnavinnu þeirra þar sem áherslan var á rómantísku stefnuna í bókmenntum. Umfjöllunarefni voru af ýmsum toga og unnu sumir að verkefnum einir en aðrir í hópum. Þessar myndir voru þá teknar.
Sindri Bansong Kristinsson hafði kynnt sér hið magnaða ljóð Raven eða Hrafninn eftir bandaríska rithöfundinn Edgar Allan Poe. Hann sagði frá skilningi sínum á ljóðinu og flutti það síðan í heild sinni á ensku með tilþrifum.
Sandra Haraldsdóttir, Þorbjörg Jóna Guðmundsdóttir og Ásdís Elva Kjartansdóttir gerðu grein fyrir einum helsta boðbera rómantísku stefnunnar, Bjarna Thorarensen, skáldi og amtmanni, sem bjó síðustu æviár sín á Möðruvöllum í Hörgárdal og er grafinn þar. Stúlkurnar lásu þrjú ljóð Bjarna, Hinir látnu, Stjörnuskoðarinn og Kysstu mig hin mjúka mær.
Marta Þórudóttir og Elísabet Ásmundsdóttir sögðu frá Jóni Thoroddsen og bók hans Piltur og stúlka en hún var oft talin fyrsta skáldsagan sem kom út á Íslandi, árið 1850.
Grímur Orri Sölvason, Heiðar Freyr Leifsson og Pétur Veigar Karlsson fluttu erindi um skáldið á Sigurhæðum, Matthías Jochumsson, og Lofsöng hans – Ó Guð vors lands, ljóð Matthíasar við lag Sveinbjörns Sveinbjörnssonar – Þjóðsöngur Íslands. Sögðu þeir m.a. frá Gallupkönnun þar sem fram komu skiptar skoðanir landsmanna til þjóðsöngsins og hvort taka beri upp nýjan þjóðsöng.
Birgir Viktor Hannesson, Jökull Þorsteinsson og Sævar Örn Kristjánsson fjölluðu um Benedikt Sveinbjarnarson Gröndal , skáld, náttúrufræðing og teiknara, sem líklega var hvað þekktastur fyrir Heljaslóðarorrustu.
Kári Hrafn Svavarsson gerði grein fyrir mynd sem hann teiknaði upp úr þjóðsögunum.
Jóna Brynja Birkisdóttir, Elísabet Ósk Magnúsdóttir, Laufey Lára Höskuldsdóttir og Ólöf Lilja Höskuldsdóttir höfðu sett sig inn í hugarheim Jónasar Hallgrímssonar skálds og samið ímyndaða dagbók hans. Þær stöllur lásu dagbókarfærslur Jónasar.
Viktoría Arnardóttir sagði frá sögunni um hvalinn Moby Dick og sýndi mynd sem hún hafði teiknað af honum.
Jón Elvar Gunnarsson hafði kynnt sér þjóðsagnasöfnun og greindi hann frá tveimur þjóðsögum – annars vegar Gilitrutt og hins vegar tveimur útfærslum á Búkollu.
Kristófer Ísak Hölluson og Karolína Helenudóttir fjölluðu um myndina Raven og Edgar Allan Poe.
Lilja Björg Jónsdóttir ræddi um Grimmsævintýri frá ýmum hliðum – t.d. Mjallhvíti, Rauðhettu, Öskubusku og Hans og Grétu.
Guðbjörg Þórarinsdóttir og Karen Hrönn Eyvindsdóttir sögðu frá ljósmóðurinni og skáldinu Ólöfu Sigurðardóttur frá Hlöðum í Hörgársveit. Þær fóru m.a. í vettvangsheimsókn og tóku myndir í litla húsinu þar sem Ólöf bjó og sýndu þær í fyrirlestri sínum.