Farsælt samstarf Fjölsmiðjunnar og VMA
Fjölsmiðjan á Akureyri og VMA hafa lengi átt í góðu samstarfi. Nemendur í skólanum sem af einhverjum ástæðum hafa ekki fundið sína fjöl í námi hafa í mörgum tilfellum fengið starf í Fjölsmiðjunni og að sama skapi hafa skjólstæðingar Fjölsmiðjunnar átt þess kost að taka áfanga í VMA samhliða vinnu sinni í Fjölsmiðjunni.
Fjölsmiðjan á Akureyri, sem er starfsþjálfunarstaður, er nú á sínu fjórtánda starfsári. Hún hefur fyrir löngu sannað mikilvægi sitt í að skapa ungu atvinnulausu fólki á aldrinum 16-24 ára störf. Sem stendur eru 22 við störf, hluta úr degi, í Fjölsmiðjunni en auk þess eru 5 í störfum fyrir tilstuðlan Fjölsmiðjunnar hjá fyrirtækjum á Akureyri.
Starfsemi Fjölsmiðjunnar er fjölþætt en hvað þekktust er hún fyrir nytjamarkaðinn sem er afar mikilvægur þáttur í rekstrinum. Ekki má gleyma bílaþvottinum sem unga fólkið í Fjölsmiðjunni tekur að sér og einnig er sala á heimilismat. Á heimasíðu Fjölsmiðjunnar og Fb.síðu er að finna upplýsingar um starfsemina.
Síðastliðinn föstudag var undirritaður nýr samstarfssamningur Fjölsmiðjunnar og Akureyrarbæjar og voru þessar myndir teknar við það tækifæri. Samninginn undirrituðu Ásthildur Sturludóttir bæjarstjóri og Erlingur Kristjánsson forstöðumaður Fjölsmiðjunnar, að viðstöddum gestum. Þar á meðal voru tveir stjórnarmenn í Fjölsmiðjunni sem jafnframt eru kennarar við VMA. Karen Malmquist er fulltrúi Rauða krossins í stjórn og Harpa Jörundardóttir er fulltrúi menntamálaráðuneytisins.