Fékk styrk úr Afreks- og hvatningarsjóði HÍ
Jakobína Hjörvarsdóttir, sem lauk stúdentsprófi frá VMA sl. vor, tók í vikunni við styrk úr Afreks- og hvatningarsjóði Háskóla Íslands en hún er núna á fyrstu önn í námi í sjúkraþjálfun við HÍ. Hún var ein af þrjátíu og fjórum styrkþegum í ár.
Hér eru nánari upplýsingar um styrkina á heimasíðu Háskóla Íslands.
Eins og kemur fram í þessari frétt á heimasíðu HÍ leggur Afreks- og hvatningarsjóður HÍ áherslu á að styðja nýnema sem náð hafa framúrskarandi árangri í námi til stúdentsprófs og jafnframt látið til sín taka á öðrum sviðum, svo sem í félagsstörfum í framhaldsskóla eða listum og íþróttum. Svo sannarlega uppfyllir Jakobína þessi skilyrði því auk framúrskarandi námsárangurs hefur hún heldur betur látið til sín taka í íþróttum og er mikilvægur hlekkur í bæði U-19 landsliði Íslands í knattspyrnu, sem tók þátt í lokakeppni Evrópumótsins í Belgíu sl. sumar, og liði Þórs/KA í Bestu deildinni.
Jakobína segist hrærð og þakklát að hafa fengið þennan styrk. Hún sé spennt fyrir komandi árum í námi sínu í HÍ, það verði krefjandi en hún sé full tilhlökkunar að takast á við það. Hún segist hafa strax í efri bekkjum grunnskóla verið nokkuð ráðin í því að læra sjúkraþjálfun í háskóla og nú sé sá draumur að verða að veruleika.
VMA sendir Jakobínu innilegar hamingjuóskir með styrkinn og óskar henni gæfu og gengis í náminu og á knattspyrnuvellinum.