Félag rafeindavirkja færir VMA að gjöf fullkomna lóðstöð
Í tilefni af fimmtíu ára afmæli sínu 6. nóvember sl. ákvað Félag rafeindavirkja að gefa þeim tveimur skólum sem kenna rafeindavirkjun, Verkmenntaskólanum á Akureyri og Tækniskólanum, sitt hvora lóðstöðina. Óskar Ingi Sigurðsson, brautarstjóri rafiðngreina í VMA, veitti gjöfinni viðtöku í afmælishófi í Reykjavík.
Það þarf ekki að fara mörgum orðum um þessa lóðstöð. Hún er mikill hvalreki fyrir nemendur og kennara í rafeindavirkjun og segja kennarar að í sínum villtustu draumum hefðu þeir aldrei ímyndað sér að þeir ættu einhvern tímann eftir að geta notað slíkan búnað í kennslu. En þökk sé höfðingsskap og hlýhug Félags rafeindavirkja í garð náms rafeindavirkja, lóðstöðin er komin á sinn stað í VMA og er afar kærkomin. Með þessari lóðstöð verða allar lóðningar á allan hátt betri og nákvæmari. Auk þessara tveggja lóðstöðva, sem eru nú komnar í Tækniskólann og VMA, er Félagi rafeindavirkja kunnugt um aðeins eina slíka stöð á landinu og er hún í eigu ISAVIA.
VMA vill koma á framfæri innilegum þökkum til Félags rafeindavirkja fyrir þessa höfðinglegu og frábæru gjöf.
Félag rafeindavirkja á sínar upphaflegu rætur að rekja aftur til ársins 1938 – fyrir áttatíu árum síðan – þegar útvarpsvirkjar stofnuðu Félag útvarpsvirkja og var það fagfélag sveina og meistara. Fyrir réttri hálfri öld, 6. nóvember 1968, var síðan stofnað Sveinafélag útvarpsvirkja sem var stéttarfélag sveina. Tólf árum síðan var nafni félagsins breytt í Sveinafélag rafeindavirkja sem var síðan eitt af félögunum sem sameinuðust í Félagi rafeindavirkja árið 1988, fyrir þrjátíu árum. Við stofnun Félags rafeindavirkja voru stofnfélagar 387 talsins. Núna eru félagar um átta hundruð og er félagið landsfélag. Félag rafeindavirkja varð til við sameiningu stéttarfélaga útvarpsvirkja, símvirkja og skriftvélavirkja og er það eitt af aðildarfélögum Rafiðnaðarsambands Íslands.
Þó svo að Félag rafeindavirkja hafi verið stofnað árið 1988 við sameiningu stéttarfélaga útvarpsvirkja, símvirkja og skriftvélavirkja rekur Félag rafeindavirkja upphaf sitt til nóvember 1968 þegar Sveinafélag útvarpsvirkja var stofnað. Þess vegna efndi Félag rafeindavirkja til 50 ára afmælisfagnaðar fyrr í þessum mánuði.