Fara í efni

Félagslífið í fullan gang

Stefán Jón Pétursson, varaformaður Þórdunu.
Stefán Jón Pétursson, varaformaður Þórdunu.

„Nemendafélagið er fyrir nemendur skólans og því munum við í stjórn Þórdunu leggja í vetur áherslu á að vinna með nemendum við að útfæra hina ýmsu viðburði. Það er ekki hægt að gera ráð fyrir að allir taki virkan þátt í félagslífi í skólanum en vonandi sem flestir,“ segir Stefán Jón Pétursson, varaformaður Þórdunu – nemendafélags VMA þegar hann er inntur eftir hvaða áform stjórn félagsins hafi um félagslífið í skólanum í vetur. Stefán Jón segir að ýmsir viðburðir hafa verið að mótast en að ýmsum öðrum sé unnið og upplýst verði um þá síðar.

Haustönn
Að venju verður í mörg horn að líta í félagslífinu núna á haustönn. Margir rótgrónir liðir verða á sínum stað en mögulega í breyttri mynd en síðan bætast alltaf nýir liðir við. Strax í næstu viku, 3. september,  að loknum nýnemadögum, verður fyrsti viðburðurinn þegar efnt verður til árlegrar nýnemahátíðar, þar sem verða hinir ýmsu leikir og grillað á eftir, og deginum lýkur síðan með nýnemaballi sem verður að þessu sinni á Pósthúsbarnum. Þrátt fyrir staðsetninguna tekur Stefán Jón skýrt fram að þetta ball eins og allar aðrar uppákomur á vegum nemendafélagsins verði vímuefnalaust og segir hann að því verði fylgt fast eftir.

Konu- og karlakvöld verða á sínum stað núna á haustönn, líklega í sömu vikunni í október, en þó verða þau með breyttu sniði frá því sem áður hefur verið – fyrst og fremst að því leyti að bæði kvöldin verða öllum opin.

Stefán Jón segir að liður í því að auka samstarf milli framhaldsskólanna á Akureyri, VMA og MA, sé svokallað „metakvöld“ með þátttöku beggja skóla, sem efnt verði til núna á haustönn, trúlega snemma í október. Þá nefnir Stefán Jón að í stað opinna daga í VMA hafi verið ákveðið að efna til svokallaðs „velgjörðardags“ núna á haustönn, þar sem nemendur geta látið gott af sér leiða til ýmissa velgjörðarmála.

Vorönn
Áfram verður haldið á vorönn og þá verður efnt til stórra árlegra viðburða eins og Söngkeppni VMA, sem verður haldin í Menningarhúsinu Hofi, eins og í fyrra, þann 18. febrúar. Árshátíð nemenda VMA hefur verið dagsett þann 11. mars og verður hún haldin með eilítið breyttu sniði, en þær breytingar verða kynntar nánar síðar.
Síðast en ekki síst verður á vorönn sett upp leikritið „Bjart með köflum“ , sem verður yfirgripsmikið verkefni og margir munu koma að. Auglýst verður eftir þátttakendum þegar líður á haustönn og nú eru í gangi viðræður við Leikfélag Akureyrar um mögulega staðsetningu á uppfærslu verksins. Stefnt er að frumsýningu 7. apríl.

Ýmislegt á prjónunum
„Við erum með ýmislegt nýtt á prjónunum og vonandi verður eitthvað af því að veruleika. Við viljum til dæmis endurvekja íþróttaráð skólans og það væri gaman ef unnt væri að efna til eins allsherjar íþróttadags í skólanum sem gæti endað með kvöldvöku,“  segir Stefán Jón. Hann nefnir einnig að stjórn Þórdunu hafi mikinn áhuga á því að auk hinnar árlegu Söngkeppni VMA verði efnt til tónlistarkeppni þar sem hinar ýmsu tónlistarmenn í skólanum keppi sín á milli.
Á sl. vetri var í fyrsta skipti til fjölda ára gefið út skólablað í VMA. Stefán Jón segir að nú þegar hafi verið skipuð ritnefnd til þess að halda útgáfunni áfram í vetur og hún sé stórhuga – jafnvel sé stefnt að útgáfu tveggja blaða á hvorri önn.