Fengu kynningu á mannréttindabaráttu Amnesty
Núna undir lok haustannar fengu nemendur í félagsfræðiáfanganum Mannréttindi og lýðræði, sem Valgerður Dögg Oddudótir Jónsdóttir og Þorsteinn Kruger kenna, kynningu á Amnesty International og óþrjótandi baráttu samtakanna út um allan heim fyrir mannréttindum fólks. Meðal annars kom Árni Kristjánsson, ungliða- og aðgerðastjóri Amnesty á Íslandi, í heimsókn í VMA og sagði nemendum frá starfsemi samtakanna og átakinu Þitt nafn bjargar lífi.
Meðal þess sem Amnesty International vinnur að er að safna undirskriftum fólks um allan heim, þar á meðal hér á Akureyri, sem lætur sig mannréttindi varða og krefjast þess að fólk sem sagt er frá á heimasíðu Amnesty á Íslandi verði látið laust úr fangelsi í sínum heimalöndum og/eða mannréttindi þess verði að fullu virt. Undirskriftir fólks sendir Amnesty síðan til stjórnvalda í viðkomandi löndum.
Nemendur í mannréttindaáfanganum kynntu átak Amnesty fyrir samnemendum sínum og á morgun, laugardaginn 10. desember, verður undirskriftasöfnun Amnesty í Pennanum Eymundsson á Akureyri kl. 12-16 og á sama tíma á Amtsbóksafninu. Því fleiri undirskriftir, því meiri þrýstingur á stjórnvöld í þessum löndum að virða mannréttindi fólks.