Fer sínar eigin leiðir
Akureyringurinn Sveinbjörn Hjalti Sigurðsson, nemandi á listnámsbraut VMA, fer sínar eigin leiðir og nýtur þess út í ystu æsar. Hann hóf nám á viðskipta- og hagfræðibraut VMA haustið 2014 en skipti yfir á listnámsbraut um áramót og er núna á annarri önn á myndlistarkjörsviði. „Mér finnst þetta mjög skemmtilegt. Ég hef alltaf haft áhuga á því að teikna og hanna og búa til mína eigin hluti. Ég var ekki alveg að finna mig á viðskipta- og hagfræðibrautinni en hér fann ég mig strax og kann gríðarlega vel við þetta nám. Ég skynja oft að mörgum finnist ekki mikið til þess koma þegar maður segir í hvaða námi maður sé, en ég´held að það viðhorf helgist svolítið af því að fólk veit ekki í hverju námið felst. Margir halda að maður sitji hér og liti daginn út og inn. En það er mikill misskilningur. Þetta er mjög breitt og áhugavert nám. Hér lærir maður hreinlega um lífið og er jafnframt stöðugt að læra inn á sjálfan sig,“ segir Sveinbjörn Hjalti.
„Núna er ég að sníða pils, þetta er lokaverkefnið okkar í þessum áfanga,“ segir Sveinbjörn Hjalti en hann tekur áfangann Fatasaum 103 sem valáfanga. „Ég hef fiktað svolítið við það heima að sauma mín eigin föt, þannig að þetta er ekki alveg nýtt fyrir mér. Ég sótti mér fróðleik á netið og þannig bjargaði ég mér en það er að sjálfsögðu miklu betra að sitja þennan áfanga og læra þetta skref fyrir skref. Mér er nákvæmlega sama þótt ég sé eini strákurinn í þessum áfanga. Ég er ekki í þessu fyrir aðra, ég er að læra þetta fyrir mig. Ég hef alltaf haft þörf fyrir að gera hlutina aðeins öðruvísi en margir aðrir, t.d. í fatavali, og hef gaman af ef fólk tekur eftir því að maður fari svolítið aðra leið.“
Sveinbjörn Hjalti segist ekki hafa gert það upp við sig hvað taki við að loknu námi á listnámsbrautinni en hönnunarnám af einhverjum toga komi til greina. „Ég hef líka mjög gaman af sölumennsku þannig að það væri gaman að geta hannað hluti í framtíðinni og selt þá síðan. Við sjáum bara til hvað framtíðin leiðir í ljós,“ segir Sveinbjörn Hjalti.
Hér má sjá fatnað sem Sveinbjörn Hjalti hefur hannað og saumað í Fatasaum 103.