Fimm þreyttu sveinspróf í vélvirkjun
Fimm þreyttu sveinspróf í vélvirkjun í húsakynnum málmiðnaðardeildar VMA um liðna helgi. Sveinsprófið var í þrjá daga, það hófst með skriflegu prófi sl. föstudag en verklegi hlutinn var á laugardag og sunnudag.
Sveinspróf í vélvirkjun skiptist í skriflegt próf, smíðaverkefni, verkefni í bilanaleit, verkefni í slitmælingu, suðuverkefni, frágang smíðaverkefnis og vinnuhraða við smíðaverkefnið og er hver þáttur metinn sérstaklega.
Í smíðaverkefninu var áherslan á nákvæmni í meðferð handverkfæra, mælitækja, lestur teikninga og vélavinnu. Smíðaeinkunn vegur 45% af lokaeinkunn verklegs prófs. Frágangur og útlit stykkisins vegur 10% af lokaeinkunn verklegs prófs.
Í bilanaleitinni var sett inn bilun í díselvél og þátttakendum í prófinu gert að finna bilunina, gera við og skrifa skýrslu um hana. Þessi hluti verklega prófsins gildir 10% af lokaeinkunn.
Í slitmælingarhluta prófsins voru mældir ýmsir hlutir í díselvél og metið hvort þeir væru í lagi eða hvort þyrfti að skipta um þá. Þessi hluti vegur einnig 10% af lokaeinkunn.
Í suðuverkefni var prófað í algengum suðuaðferðum á járni, kopar, áli, steypujárni og ryðfríu stáli ásamt kveikingu. Einkunn í suðuverkefni vegur 25% af lokaeinkunn verklegs prófs.
Þau fimm sem þreyttu sveinsprófið í vélvirkjun hafa öll verið í námi í VMA. Þau eru: Aðalsteinn Ásgeir Ólafsson, Arnór Reyr Rúnarsson, Aron Ernir Guðmundsson, Íris Arngrímsdóttir og Pétur Már Hjartarson.