Fimm VMA-nemar fengu viðurkenningar á nýsveinahátiðinni 2017
Fimm VMA-nemar fengu viðurkenningar á árlegri nýsveinahátíð Iðnaðarmannafélagsins í Reykjavík sl. laugardag. Allir luku þeir sveinsprófum í sínum greinum á liðnu ári með afburða námsárangri.
Iðnaðarmannafélagið í Reykjavík hélt sl. laugardag í ellefta skipti svokallaða nýsveinahátíð í Tjarnarsal Ráðhússins í Reykjavík. Að þessu sinni voru samtals 23 nýsveinar verðlaunaðir, þar af hlutu 13 silfurverðlaun og 10 bronsverðlaun.
Tveir VMA-nemar hlutu silfurverðlaun fyrir múrsmíði – Ásgeir Helgi Guðmundsson og Sindri Ólafsson. Þeir voru í náminu í VMA hjá Bjarna Bjarnasyni múrarameistara en tóku báðir samninginn sinn hjá Valdimari Þórhallssyni múrarameistara hjá Múriðn á Akureyri. Þar hefur Ásgeir Helgi starfað í um sex ár en Sindri býr á Siglufirði.
Aðrir þrír VMA-nemar fengu bronsverðlaun í sínum iðngreinum. Pálmar Magnússon (sjá meðf. mynd) hlaut viðurkenningu fyrir hársnyrtiiðn. Hann tók samninginn sinn hjá Amber á Akureyri og var Heiða Hrönn Hreiðarsdóttir meistari hans. Frá febrúar á síðasta ári hefur hann starfað á Rakarastofu Akureyrar, fyrst við Tryggvagötu á Akureyri og nú við Hafnarstræti, en í síðasta mánuði sameinuðu Passion og Rakarastofa Akureyrar krafta sína undir merkjum Rakarastofunnar. Hér er viðtal við Pálmar sem var birt hér á heimasíðunni fyrir um tveimur árum. Jón Heiðar Sveinsson tók grunndeild matvælagreina í VMA en lauk framreiðslunámi sínu Hótel – og matvælaskólanum – MK. Námssamning sinn tók Jón Heiðar á Rub23 og þar starfar hann nú sem vaktstjóri. Þriðji bronsverðlaunahafinn úr VMA er Steinar Karl Ísleifsson fyrir málaraiðn. Hann tók megnið af skólatíma sínum 2008-2009. Meistari hans var Steinar Rúnar Sigþórsson. Hann starfaði hjá Birni málara á Akureyri en vinnuveitandi hans í dag er MSM ehf. málningarverktaki á Akureyri.