Fimmtán í sveinsprófi í rafvirkjun í VMA
Fimmtán þreyttu sveinspróf í rafvirkjun í síðustu viku í VMA. Einnig er þessa dagana sveinspróf í rafvirkjun í Reykjavík og í það heila, á þessum tveimur stöðum, var 91 skráður í sveinspróf. Hér eru myndir úr verklega prófinu sl. fimmtudag.
Sveinspróf í rafvirkjun er tvisvar á ári, í febrúar og júní. Prófþættirnir eru fimm; rafmagnsfræði - stýrikerfi og búnaður, raflagnateikningar, staðlar, mælingar og verklegt próf - raflagnir og stýringar.
Í VMA var fyrsti prófþátturinn sl. mánudag og prófinu lauk sl. föstudag undir vökulum augum formanns prófnefndar, Jóns Ólafs Halldórssonar. Hann segir að langt sé síðan svo margir hafi þreytt sveinspróf í rafvirkjun í Reykjavík og á Akureyri. Engu að síður sé fjarri því að vinnumarkaður fyrir rafvirkja sé mettaður.
„Það fara ekki allir nýútskrifaðir rafvirkjar út á vinnumarkaðinn, margir fara áfram í frekara nám, t.d. verkfræði, tölvugreinar og tæknifræði. Þetta nám er ótvírætt mjög góður grunnur fyrir frekara nám í tæknigreinum,“ segir Jón Ólafur.
Af fimmtán í sveinsprófinu í VMA voru tvær konur.