Finnur ræðir um Facebook
Í dag, þriðjudaginn 6. mars, kl. 17-17.40 flytur Finnur Friðriksson, dósent í íslensku við Háskólann á Akureyri, fyrirlestur í Ketilhúsinu undir yfirskriftinni Facebook: Sköpun sjálfsmyndar í máli og myndum.
Í fyrirlestrinum verður fjallað um rannsóknir Finns á tjáningu unglinga á samfélagsmiðlinum Facebook. Einkum verður hugað að því hvernig sjálfsmyndarsköpun fer þar fram með myndrænni jafnt sem málbundinni framsetningu.
Finnur Friðriksson útskrifaðist með B.A.-gráðu í ensku og sagnfræði frá HÍ 1996 og Ph.D. í málvísindum frá Gautaborgarháskóla 2008. Hann lauk námi til kennsluréttinda við Háskólann á Akureyri 2011 og er nú dósent í íslensku við HA auk þess að vera brautarstjóri kennarabrautar við kennaradeild skólans. Finnur hefur starfað við HA síðan 2002, fyrir utan 2011-2012 er hann starfaði sem lektor við Gautaborgarháskóla.
Fyrirlestur Finns er í fyrirlestraröðinni Þriðjudagsfyrirlestrar í Ketilhúsinu sem er samvinnuverkefni Listasafnsins á Akureyri, Gilfélagsins, VMA, Myndlistafélagsins og Háskólans á Akureyri.
Aðgangur er ókeypis.