Fjallað um fjármálalæsi í skólum
Frá árinu 2011 hefur verið starfandi stýrihópur um fjármálalæsi í skólum á Íslandi á vegum mennta- og menningarmálaráðuneytisins í samstarfi við Samtök fjármálafyrirtækja. Þann 5. maí sl. var haldinn í Reykjavík fundur þar sem þetta málefni var til umræðu.
Í stýrihópnum um fjármálalæsi í skólum sitja:
Sölvi Sveinsson formaður, tilnefndur af mennta- og menningarmálaráðuneytinu, formaður,
Þórey Þórðardóttir tilnefnd af Landssamtökum lífeyrissjóða,
Hafdís Finnbogadóttir, tilnefnd af Námsgagnastofnun,
Ragnhildur Guðjónsdóttir, tilnefnd af Neytendasamtökunum,
Halldóra Traustadóttir, tilnefnd af Samtökum fjármálafyrirtækja,
Mjöll Matthíasdóttir, tilnefnd af Kennarasambandi Íslands,
Ómar Örn Magnússon, tilnefndur af Sambandi íslenskra sveitarfélaga
Halldór Jörgensson, tilnefndur af Heimili og skóla.
Stýrihópurinn hefur fylgt eftir tilraunaverkefni í fjárámálalæsi í skólum víðs vegar um landið og meðal annars
staðið fyrir vinnustofum með kennurum, nemendum og fjármálafólki til að efla kennslu í fjármálalæsi.
Fimmtudaginn 5.desember sl. héldu samtök fjármálafyrirtækja (SFF) fund í húsi Arion banka í Borgartúni þar sem fjallað var um
fjármálafræðslu í grunn- og framhaldsskólum landsins.
Vel var mætt og mæltu fyrir fundinum Illugi Gunnarsson, mennta- og menningamálaráðherra og Höskuldur H. Ólafsson, bankastjóri og formaður
stjórnar SFF.
Töluðu þeir báður um nauðsyn þess að efla fjármálalæsi í grunn- og framhaldsskólum. Var þeim þó
einnig tíðrætt um skyldur heimilisins því heimilið hefur líka hlutverki að gegna í að uppfræða unga fólkið um gagnsemi
þekkingar á peningum.
Mennta- og menningarmálaráðherra sagði litla sögu af því þegar hann var fyrst að sækjast eftir sæti í prófkjöri
síns flokks í Reykjavík, þá hafi hann boðið nokkrum mönnum úr fjármálageiranum til sín svo hann gæti áttað
sig á hverjar þeirra áherslur væru. Það kom honum mjög á óvart að allir vildu þeir frekar ræða menntun barna sinna og
þá helst þá menntun sem snéri að viðskiptum og fjármálum almennt.
Viggó Ásgeirsson stofnandi Meninga sagði frá þeim veflausnum sem það fyrirtæki hefur að bjóða og hvernig þær lausnir m.a.
hjálpa til við að upplýsa fólk um fjárhagsstöðu þess í gegnum netbanka.
Einnig kom frá Hollandi Arthur Reitsma frá hollensku bankasamtökunum og kynnti hann þá leið sem þau samtök hafa farið í að efla
fjármálaþekkingu barna í grunnskólum og framhaldsskólum þar í landi.
Sigrún Ragna Ólafsdóttir, varaformaður SFF, stýrði fundinum en í lokin voru pallborðsumræður um fjármálafræðslu
í skólum og stýrði Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, fyrrum menntamálaráðherra og núverandi forstöðumaður mennta-
og nýsköpunarsviðs Samtaka atvinnulífsins, þeim umræðum.
Þeir sem tóku þátt í umræðunum voru; Petra Bragadóttir, framhaldsskólakennari og formaður samtaka kennara í viðskipta- og
hagfræðigreinum, Mjöll Matthíasdóttir grunnskólakennari, Brynjólfur Sævarsson, útibússtjóri Landsbankans í Vesturbæ,
Halldóra Gyða Matthíasdóttir, útibússtjóri Íslandsbanka í Garðabæ og Fjóla Guðjónsdóttir,
forstöðumaður forvarna hjá Sjóvá.
Fundurinn var mjög fróðlegur og áhugaverður í alla staði og ljóst er að mönnum er umhugað að unga fólkið sem sækir grunn- og framhaldsskóla landsins verði uppfrætt um fjármál og peninga og áhrif þeirra á okkar daglega líf. Hér má sjá myndir sem voru teknar á fundinum.
(Texti og myndir: Hilmar Friðjónsson)