Fjallar um formgerð í samtímalist
Í dag, þriðjudaginn 4. febrúar kl. 17-17.40, heldur Jón B. K. Ransu, myndlistarmaður, fyrirlestur í Ketilhúsinu undir yfirskriftinni Formleysa, úrkast og blendingsform.
Í fyrirlestrinum fjallar Jón um formgerðir í samtímalist sem framkalla togstreitu á milli andstyggðar og aðlöðunar. Þessar ákveðnu formgerðir komu fyrst fram í örtextum franska heimspekingsins Georges Battaille en eru síðan áberandi í kenningum bandaríska listfræðingsins Rosalind Krauss og franska heimspekingsins Yves Alain-Bois og fransk-búlgarska heimspekingsins Juliu Kristeva.
Jón B. K. Ransu er fæddur í Reykjavík 1967. Hann er myndlistarmaður, menntaður í Hollandi 1990-1995 og hefur sinnt myndlistarsköpun jöfnum höndum síðan. Hann starfar einnig sem fræðimaður og hefur ritað þrjár bækur um samtímalist, Listgildi samtímans: Handbók um samtímalist á Íslandi (2012), Málverkið sem slapp út úr rammanum (2014) og Hreinn hryllingur: Form og formleysur í samtímalist (2019). Þá var hann meðhöfundur bókanna Gerður: Meistari málms og glers (2010) og Valtýr Pétursson (2017).
Þá hefur Ransu starfað sem sýningarstjóri og skipulagt sýningar fyrir Listasafn Íslands, Listasafn Reykjavíkur og Nýlistasafnið. Hann var einn af sýningarstjórum tvíæringsins Momentum 9: Alienation í Moss í Noregi árið 2017 og nýafstaðinnar sýningar í Listasafni Kópavogs - Gerðarsafni, sem bar heitið Fullt af litlu fólki, og fjallaði um birtingu andlegrar iðkunar í myndlist. Hann er deildarstjóri við Listmálarabraut Myndlistaskólans í Reykjavík, sem er tveggja ára diplómanám með áherslu á að kenna aðferðir málaralistar.