Fjallar um landslagsmálverk Georgs Guðna í þriðjudagsfyrirlestri
Vigdís Rún Jónsdóttir, listfræðingur, heldur fyrirlestur í Ketilhúsinu í dag, þriðjudaginn 19. mars, kl. 17:00-17:40, undir yfirskriftinni Að þoka sig í átt að „Guði“ – um hið trúarlega í landslagsmálverkum Georgs Guðna. Fyrirlesturinn tengist lokaverkefni Vigdísar í BA námi í listfræði við Háskóla Íslands. Þar leitaðist hún við að svara spurningunni hvort landslagsmálverk Georgs Guðna geti staðið fyrir hinn yfirskilvitlega og ósýnilega veruleika sem guðsmynd kristindómsins átti að standa fyrir fyrr á öldum.
Vigdís Rún Jónsdóttir er menntaður listfræðingur frá Háskóla Íslands og starfar sem menningarfulltrúi hjá Eyþingi-sambandi sveitarfélaga í Eyjafirði og Þingeyjarsýslum. Undanfarin ár hefur hún fengist við ritstjórnarstörf og sýningarstjórnun af ýmsu tagi, t.a.m. sýningarstjórnun á sýningunni Bókstaflega – konkretljóð á Íslandi frá 1957 til samtímans. Sýningin var unnin út frá rannsóknum hennar í meistaranámi í listfræði á konkretljóðum í íslensku samhengi og var markmið sýningarinnar að sýna fram á þróun hugtaksins „konkretljóð“ og gildi þess í samtímanum.
Þriðjudagsfyrirlestrarnir í Ketilhúsinu eru samvinnuverkefni Listasafnsins á Akureyri, VMA, Gilfélagsins og Myndlistarfélagsins.
Ókeypis er á fyrirlestur Vigdísar, sem er sá síðasti í vetur í þessari árlegu fyrirlestraröð, og eru allir velkomnir.