Fjármálastjórar framhaldsskólanna í heimsókn í VMA
Í liðinni viku var haldinn á Akureyri aðalfundur FFÍF - Félags fjármálastjóra í framhaldsskólum en eins og nafn félagsins segir til um eru í því fjármálastjórar í framhaldsskólum landsins - tuttugu og sjö ríkisskólum og þremur einkareknum skólum.
FFÍF var stofnað fyrir tuttugu árum og er samræðuvettvangur fjármálastjóra í framhaldsskólunum. Þetta árið var aðalfundurinn haldinn í húsnæði Menntaskólans á Akureyri sl. miðvikudag og í leiðinni gafst fundarmönnum tækifæri til þess að skoða húsakynni MA. Að fundinum loknum var m.a. haldið í Skógarböðin og síðan snæddur kvöldverður á Rub 23.
Fyrir hádegi sl. fimmtudag sóttu fjármálastjórarnir VMA heim og sýndu Hrafnhildur Haraldsdóttir fjármálastjóri og Sigríður Huld Jónsdóttir skólameistari þeim skólann og kynntu skólastarfið. Að því búnu var boðið til hádegisverðar.
Hrafnhildur segir FFÍF mikilvægan vettvang fyrir fjármálastjóra í framhaldsskólunum til þess að bera saman bækur sínar og miðla upplýsingum. Þó skólarnir séu í eðli sínu ólíkir að stærð og hvað námsframboð snerti séu fjármálastjórarnir dags daglega að vinna að sambærilegum verkefnum.
VMA þakkar fjármálastjórum framhaldsskólanna fyrir ánægjulega heimsókn.