Fóta sig í nýju landi vegna stríðsátakanna í Úkraínu
Það er erfitt fyrir Íslendinga að setja sig í spor fólks sem flýr sitt heimaland vegna stríðsátaka, eiginlega er það algjörlega ómögulegt. Í kjölfar innrásar Rússa í Úkraínu í febrúar á þessu ári hefur mikill fjöldi fólks séð sér þann kost vænstan að flýja frá Úkraínu af ótta um öryggi sitt og sinna. Fólk á flótta sem leitar skjóls í framandi landi. Ekki aðeins hafa tæplega 8 milljónir Úkraínumanna yfirgefið heimalandið heldur hefur fjöldi Hvít-Rússa, sem hafa verið andsnúnir stuðningi stjórnvalda í Hvíta-Rússlandi við Pútín og stjórnvöld í Rússlandi vegna stríðsins í Úkraínu, valið þann kostinn að yfirgefa Hvíta-Rússland. Það sama má segja um Rússa sem eru andvígir stríðsrekstri Pútíns í Rússlandi.
Eins og í öðrum vestrænum ríkjum hefur fjöldi flóttamanna frá Úkraínu leitað skjóls á Íslandi á undanförnum mánuðum og leitast við að fóta sig í nýju umhverfi og aðstæðum, fjarri heimalandinu. Í VMA eru þrír nemendur frá Úkraínu og einn frá Hvíta-Rússlandi sem flúðu sín heimalönd vegna stríðsreksturs Rússa í Úkraínu. Á degi hverjum takast þau á við nýjar áskoranir, kynnast nýju landi, öðruvísi menningu og allt öðruvísi tungumáli. Þetta er mikið átak en aðdáunarvert er hvernig nemendurnir nálgast verkefnið, af ótrúlegu æðruleysi.
Khrystyna Parasiuk kom til Íslands í lok maí sl. ásamt móður sinni. Hún er frá höfuðborginni Kyiv og þær mæðgur ákváðu að yfirgefa landið þegar Rússar byrjuðu að varpa sprengjum á höfuðborgina. Öryggi þeirra var ógnað og þær treystu sér ekki lengur til að búa við slíkt óöryggi. Leiðin lá fyrst til Slóvakíu þar sem þær dvöldu um hríð. Röð tilviljana leiddi þær síðan til Íslands og alla leið norður í Hrísey, þar sem þær mæðgur störfuðu á liðnu sumri á veitingastaðnum Brekku. Yfirmaður þeirra í Brekku greiddi síðan götu þeirra og ný búseta á Akureyri tók við. Khrystyna innritaðist í Verkmenntaskólann en móðir hennar starfar á veitingastað á Akureyri. Khrystyna brosir þegar hún rifjar upp að fólk hafi lýst mikilli undrun þegar þær mæðgur hafi farið norður í land, þar væri varla annað en jöklar og vegleysur! Svo reyndist ekki vera, þvert á móti segist Khrystyna að þeim hafi mætt elskulegt fólk og viðmót almennt hér á landi hafi verið í senn hlýlegt og hjálplegt.
Andrey Vitkouski er frá Hvíta-Rússlandi. Faðir hans er íslenskur en móðirin hvítrússnesk. Andrey kom til Akureyrar sl. sumar. Hann segist vera einarður stuðningsmaður Úkraínumanna og því algjörlega andsnúinn stuðningi Lukashenko forseta landsins við Pútín og hernað Rússa í Úkraínu. Einnig hafi Hvít-Rússar tekið beint og óbeint þátt í stríðsátökunum, sem hann geti ekki stutt á nokkurn hátt. Andrey segir að hann hafi séð sér þann kost vænstan að flýja land. Leiðin hafi legið til Íslands, sem hann þekkti því hingað hafði hann komið áður. Andrey segir það liggja fyrir að ef hann færi aftur til Hvíta-Rússlands myndi annað hvort bíða hans herskylda eða fangelsisvist. Andstaða við stjórnvöld sé ekki liðin í Hvíta-Rússlandi.
Ioanna Borysova er frá Kamianske, borg í austurhluta Úkraínu. Þar bjuggu fyrir innrás Rússa á þriðja hundrað þúsund manns. Ioanna kom til Íslands í apríl með móður sinni og ömmu. Fyrst bjuggu þær á Fosshóteli í Reykjavík en voru síðan um skeið á Bifröst í Borgarfirði en núna búa þær á Akureyri og Ioanna sækir nám í VMA.
Allir þessir þrír nemendur fóta sig í nýju umhverfi og takast á við hversdaginn í framandi aðstæðum. Þau segja líðan sína góða á Akureyri og sömuleiðis ljúka þau lofsorði á VMA og kennara skólans. Áherslan í náminu er ekki síst á íslensku og einnig er enska ofarlega á blaði. Auk þess að læra íslensku í VMA sækja bæði Khrystyna og Ioanna íslenskunám hjá Símenntunarmiðstöð Eyjafjarðar.
Báðar segja þær erfitt að fá fréttir frá Úkraínu um þær þjáningar sem úkraínska þjóðin þarf að þola. Mannfall sé mikið og eyðileggingin í landinu gríðarleg.
Auk þess að stunda nám í VMA er Khrystyna á öðru ári í háskóla í Kyiv. Hún stundar fjarnám við skólann í ýmsu er lýtur að samgöngum. Aðspurð segist hún horfa til þess að stunda háskólanám hér á landi, þegar hún hafi náð nægilega góðum tökum á bæði ensku og íslensku. Hér sjái hún sína framtíð. Hún segir nauðsynlegt að hugsa í núinu en ekki hvað verði eftir nokkur ár. Ómöglegt sé að spá fyrir um hversu lengi stríðsátökin vari í Úkraínu, kannski í eitt ár, kannski í tvö ár. Síðan taki við að byggja upp alla innviði á nýjan leik í landinu. Það taki mörg ár. Hún segist horfa þannig á málin að mikilvægast sé að takast á við daginn í dag og horfa til framtíðar. Eins og er sjái hún sína framtíð hér á landi, hér vilji hún mennta sig og byggja sig upp fyrir framtíðina og þess vegna vilji hún leggja mikið á sig til þess að læra íslensku. Á Akureyri líði henni vel og hún sé farin að upplifa þá tilfinningu að þetta sé hennar heimabær.