Fjölbreytt nám á íþróttabraut
Í VMA er boðið upp á tveggja ára nám á íþróttabraut, þar sem nemendur kynnast fjölda íþróttagreina og fara yfir grunnatriði í þjálffræði. Að loknu þessu tveggja ára námi geta nemendur bætt við sig öðrum tveimur árum til stúdentsprófs. Brautarstjóri íþróttabrautar segir íþróttabrautina mjög góðan undirbúning fyrir frekara nám á háskólastigi í m.a. íþróttafræði, íþróttakennslu og sjúkraþjálfun.
Um 65 nemendur eru nú skráðir á íþróttabraut VMA, þar af skráðu sig 12 nemendur til náms við brautina sl. haust.
„Ég hugsa að megi segja að flestir nemendur sem hefja nám á íþróttabraut hafi stundað einhverjar íþróttir eða hafa sérstakan áhuga á íþróttum. Það er auðvitað allur gangur á því hvaða markmið nemendur setja sér, en ég veit mörg dæmi þess að nemendur hafi haldið áfram á þessari sviði í háskólanámi, t.d. íþróttafræði í Háskólanum í Reykjavík eða í íþróttakennaranám á Laugarvatni, sem er undir Háskóla Íslands. Nemendur fá tækifæri til þess að kynnast mörgum íþróttagreinum og sömuleiðis læra þeir margt um líkamann,“ segir Hinrik Þórhallsson, brautarstjóri íþróttabrautar VMA.
Í kynningu á íþróttabrautinni, hér á vef VMA, segir m.a. að brautinni sé ætlað að búa nemendur undir leiðbeinenda- og þjálfarastörf hjá íþróttafélögum. Nemendur eigi að verða færir um að stjórna, kenna og þjálfa íþróttir hjá íþróttafélögum að loknu námi á íþróttabraut. Auk almennra grunnfaga læra íþróttabrautarnemar m.a. heilbrigðisfræði, íþróttafræði, næringarfræði og skyndihjálp. Þá má nefna að þeir geta tekið grunnþjálfunarnámskeið ÍSÍ og sömuleiðis 1. stig þjálfunarnámskeiða KSÍ. Einnig fá þeir innsýn í grunnþjálfun í bæði blaki og handknattleik.
„Við reynum að gefa nemendum innsýn í sem flestar íþróttagreinar og það er auðvelt hér á Akureyri og í Eyjafirði, enda framboðið af íþróttagreinum hér mikið. Hvarvetna er okkur vel tekið og forráðamenn íþróttafélaga eru afar hjálplegir. Fyrir það vil ég þakka sérstaklega,“ segir Hinrik, en meðal þess sem íþróttabrautarkrakkar kynna sér í þessari viku er hestamennska. Farið verður í hið risastóra hesthús, skammt sunnan Dalvíkur, aðstaðan skoðuð og fræðst um hver sé galdurinn á bakvið hestamennsku.